Stjórnendastefna ríkisins í samráðsgátt
Unnin hafa verið drög að stjórnendastefnu fyrir ríkið, sem ætlað er að bæta stjórnendafærni og efla stjórnun. Í stefnunni er kveðið á um hvaða hæfni, þekkingu og eiginleika stjórnendur þurfa að bera og hvernig ríkið ætlar að styðja við stjórnendur til að ná framúrskarandi árangri. Drögin hafa verið lögð í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til umsagna til 1. febrúar.
„Stjórnendur og starfsfólk ríkisins gegna lykilhlutverki í veitingu opinberrar þjónustu. Stjórnendur þurfa að búa yfir hæfni og þekkingu til að geta brugðist við breytingum í samfélaginu og sífellt flóknara starfsumhverfi. Til að tryggja öfluga stjórnun hjá ríkinu þarf að búa stjórnendum umhverfi þar sem eftirsóknarvert er að starfa og tækifæri til að eflast og þróast í starfi,“ segir í drögum að stefnunni.
Drög að stjórnendastefnu ríkisins í samráðsgátt