Aukið vægi umhverfismála í huga almennings
Um 83% landsmanna hafa áhyggjur af hlýnun jarðar og um 60% hugsa mikið um hvað þau geta gert til að draga úr áhrifum sínum á loftslagið, samkvæmt nýrri könnun Gallup. Á tólf mánuðum hefur orðið veruleg vitundarvakning meðal Íslendinga.
Þetta er meðal þess sem fram kom á umhverfisráðstefnu Gallup sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði í morgun. Sagði hann í erindi sínu ánægjulegt að fá staðfestingu á því að umhverfismál séu að fá aukið vægi í hugum fólks. „Ég hef alltaf haft þá bjargföstu trú að það að auka sýnileika umhverfismála skipti máli. Ég fagna því að sjá birtast hér í þessari könnun að það að umhverfismálin séu í umræðunni, að fræðsla fari fram um þau og þau séu í fjölmiðlum geti einmitt breytt viðhorfum fólks.“
Hann sagði þróun frétta af umhverfismálum undanfarin ár endurspegla þetta, væri litið til þeirra fréttamiðla sem Fjölmiðlavaktin vaktar, skv. óformlegri könnun samstarfskonu sinnar. Þannig hafi fréttum sem innibera orðið „umhverfismál“ fjölgað um tæp 80% á fimm árum og 56% aukning hafi orðið á fréttum um plast á síðustu þremur árum. Á sama tímabili hafi orðið nær tvöföldun á fréttum um friðlýsingar.
Ráðherra gerði einnig viðhorf til stjórnmálamanna að umtalsefni en samkvæmt könnuninni gefur um 75% viðleitni stjórnvalda og sveitarfélaga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meðaleinkunn eða lægra. Hann sagði gott að skynja að fólk væri kröfuhart í þessum málaflokki. Mikið verk væri að vinna og vísaði hann til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í því sambandi. „Fram undan eru viðamiklar aðgerðir við að binda bæði kolefni úr andrúmslofti og draga úr brennslu innflutts og mengandi jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Fram undan eru margvísleg verkefni tengd bæði aðgerðaáætluninni en líka áherslu á plast, neyslu og sóun. Til að mynda er unnið að því að koma Loftslagssjóði á fót, sem er nýsköpunarsjóður, og fljótlega mæli ég fyrir frumvarpi um banni við afhendingu burðarplastpoka í verslunum. Allt helst þetta í hendur.“
Ræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra á umhverfisráðstefnu Gallup.