170 norrænir viðburðir á Íslandi á formannsári
Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var kynnt í Norræna húsinu síðdegis en hún hófst formlega um síðustu áramót. Yfirskrift formennskunnar er „Gagnvegir góðir“ og vísar hún til vináttu og samstarfs Norðurlandanna í fortíð og framtíð.
„Norðurlöndin eru á margan hátt að þjappa sér betur saman, nú þegar ákveðinn óvissa ríkir á alþjóðavettvangi“, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda í ávarpi sínu, og sagði norrænt samstarf afar mikilvægt fyrir Ísland. Norðurlöndin veita styrka pólitíska fótfestu, eru samanlagt stærsta viðskiptaland Íslands, og mikilvægur vettvangur fyrir menningu og listir, menntun og rannsóknir.
Áherslur Íslands á formennskuárinu eru þrjár: ungt fólk, sjálfbær ferðamennska og málefni hafsins. Efnt verður til samtals níu samnorræna formennskuverkefna á þessum sviðum. Í tengslum við formennskuna fara fram hátt í 170 norrænir og alþjóðlegir fundir og viðburðir á Íslandi. Alls verða um fjórtán ráðherrafundir haldnir hérlendis á árinu og þrjár stórar alþjóðlegar ráðstefnur. Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, var viðstaddur kynninguna og vakti athygli á því að aukinn stuðningur er meðal íbúa Norðurlandanna við norrænt samstarf en um þrír af hverjum fjórum íbúum vilja meiri eða mun meiri samvinnu.
Nánar um Norrænu ráðherranefndina.
Gagnvegir góðir - formennskuáætlun Íslands 2019.
#norden2019