Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Innviðaráðuneytið

Fjögurra ára aðgerðaáætlun um Árósasamninginn kynnt í ríkisstjórn

Mikil aðsókn var að málþingi um Árósasamninginn sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð fyrir í apríl 2018. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í morgun í ríkisstjórn, aðgerðáætlun til fjögurra ára vegna Árósasamningsins. Aðgerðaáætlunin er sett fram til að fylgja eftir landsskýrslum Íslands vegna Árósasamningsins sem og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Árósasamningurinn var fullgiltur á Íslandi 2011 en samningurinn leggur skyldur á aðildarríkin að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið og geta borið ákvarðanir er snerta umhverfið undir óháða úrskurðaraðila.

Aðildarríkjum Árósasamningsins ber að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins með reglubundnu millibili þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar á ákvæðum samningsins og hefur Ísland skilað slíkri skýrslu í tvígang. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða skuli á fyrri hluta kjörtímabilsins ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála til að tryggja þann rétt þeirra á fyrri stigum leyfisveitingarferlis og málsmeðferð geti þannig orðið skilvirkari án þess að gengið sé á þennan rétt. Jafnframt segir að þjóðréttarskuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum skuli komið til framkvæmda.

Aðgerðaáætlunin inniheldur áherslur á fjórum sviðum sem eru menntun og fræðsla um Árósasamninginn, aðgangur að upplýsingum um umhverfismál, þátttaka almennings í ákvarðanatöku í málum er varða umhverfið og aðgengi að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum en alls er um að ræða fjórtán aðgerðir. Nú þegar hefur nokkrum aðgerðum verið hrint af stað, eins og til dæmis málþingi sem haldið var um samninginn og styrkingu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Gert er ráð fyrir að endurmat aðgerðaáætlunar fari fram í lok hvers árs þann tíma sem hún gildir.

Aðgerðaáætlun um Árósasamninginn 2018-2021


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta