Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um norðurslóðasamstarf undirrituð

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri og Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs. - myndUtanríkisráðuneytið

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um framhald rannsóknasamstarfs á sviði norðurslóðafræða.

Viljayfirlýsingin er forsenda þess að norskir og íslenskir fræðimenn geti sótt um styrki til sameiginlegra rannsóknarverkefna á fræðasviði norðurslóða. Þá tryggir hún áframhaldandi fjármögnun á stöðu gestaprófessors í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri, svonefndri Nansen-prófessorsstöðu. 

Rannsóknasamstarf þjóðanna hófst árið 2012 og hefur það gefið góða raun. Fram til þessa hafa 75 norsk-íslensk samstarfsverkefni hlotið styrk, flest tengd loftslagsbreytingum, veðurfari og umhverfisþáttum.

Hluti rannsóknasamstarfsins hefur falist í fjármögnun áðurnefndrar prófessorsstöðu við Háskólann á Akureyri. Frá 2012 hafa fjórir virtir fræðimenn gegnt stöðunni, nú síðast dr. Gunhild Hoogensen-Gjørv, prófessor við friðarfræðasetur Háskólans í Tromsø.

Háskólinn á Akureyri auglýsir á næstunni Nansen-prófessorsstöðuna fyrir næsta skólaár. Rannís, sem annast umsýslu styrkjanna, tilkynnir umsóknarfrest er líða fer á árið.   

Fyrir undirritunina funduðu Sturla og Halvorsen meðal annars um norræna samvinnu á formennskuári Íslands, norðurslóðamál, samvinnu innan EES, öryggis- og varnarmál og ýmis alþjóðamál.

  • Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri og Audun Halvorsen, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 4 Menntun fyrir alla
Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta