Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um bann við burðarplastpokum

Plastpokar enda of oft í náttúrunni. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem varðar notkun burðarpoka.

Lagt er til í frumvarpinu að frá og með 1. júlí 2019 verði óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skuli gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun. Frá og með 1. janúar 2021 verði síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án gjalds. Bannið sjálft á þannig við um plastpoka en ekki burðarpoka úr öðrum efnum.

„Banni við burðarplastpokum er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum. Verkefnið fram undan er umfangsmikið og ýmiss konar lausnir nauðsynlegar, plastpokarnir eru þar einungis eitt skref. Hér er hins vegar um mikilvægan áfanga að ræða. Með því að banna plastpoka tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð en höfum um leið víðtækari áhrif. Aðgerðin snertir daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess. Þetta virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í frumvarpinu er um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti. Frumvarpið gengur þó lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Þannig er ríkjum t.d. heimilt að undanskilja þynnstu pokana. Þau eru þó hvött til að gera það ekki og Ísland verður við þeirri hvatningu.

Með frumvarpinu fylgir umhverfis- og auðlindaráðherra einnig eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði ráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember síðastliðnum og bann við burðarplastpokum var ein þeirra.

Önnur tillaga, aðstoð við neytendur sem mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru, hefur þegar komið til framkvæmda, og undirbúningur stendur yfir varðandi tillögu sem felur í sér viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Verið er að vinna úr öðrum tillögum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en þær fela til dæmis í sér vitundarvakningu um of mikla notkun fólks á plasti og að lagt verði úrvinnslugjald á allt plast.

Burðarplastpokar hafa þegar verið bannaðir í fjölda ríkja og nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum eru hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum samkvæmt könnun MMR frá í október síðastliðnum. Bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum verslana, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.

Spurt og svarað um bann við burðarplastpokum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta