Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Um hálfum milljarði króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Hafnarfjarðar við nýbyggingu Sólvangs í október síðastliðnum - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 495 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar í öldrunarþjónustu. Hæstu framlögin renna til endurgerðar hjúkrunarrýma á gamla Sólvangi í Hafnarfirði og til uppbyggingar þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg í Reykjavík.

Í Hafnarfirði styttist í að framkvæmdum ljúki við byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Sólvang með hjúkrunaríbúðum fyrir 60 íbúa sem eru nær jafnmörg rými og á gamla Sólvangi. Á liðnu ári leituðu forsvarsmenn Hafnarfjarðar til heilbrigðisráðherra og lýstu áhuga á því að nýta gamla húsnæðið til að fjölga hjúkrunarrýmum. Þörfin væri brýn, fjölgunin myndi styrkja rekstrarhagkvæmni hjúkrunarheimilis við Sólvang og nauðsynlegar endurbætur sem gera þarf á gamla húsnæðinu útheimti minna fjármagn en ef um nýbyggingu væri að ræða. Heilbrigðisráðherra féllst á erindið sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu um 33.

Þessi fjölgun hjúkrunarrýma í Hafnarfirði fellur  undir átak stjórnvalda til uppbyggingar á þessu sviði og hefur fjármagn til reksturs þeirra verið tryggt. Framlag til Hafnarfjarðarbæjar úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna endurgerðar gamla Sólvangs nemur um 240 milljónum króna en þær snúast fyrst og fremst um að breyta fjölbýlum í einbýli og bæta aðstöðu til samræmis við nútímakröfur.

Þjónustumiðstöð við nýja hjúkrunarheimilið við Sléttuveg

Við Sléttuveg í Reykjavík er að rísa nýtt hjúkrunarheimili fyrir um 100 íbúa sem áformað er að taka í notkun haustið 2019. Hrafnista sem mun reka heimilið sótti um framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna byggingar þjónustumiðstöðvar sem verður tengd hjúkrunarheimilinu. Framlag úr sjóðnum sem veitt er til þessa verkefnis nemur rúmum 163 milljónum króna.

Aðrar úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra að þessu sinni renna til smærri viðhaldsverkefna á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið, líkt og sjá má í meðfylgjandi skjali.

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta