Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2019 Forsætisráðuneytið

10. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

10. fundur – haldinn miðvikudaginn 1. febrúar 2019, kl. 13.00-17.00, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) hafði boðað forföll vegna veikinda.

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Ragnhildur Helgadóttir prófessor er gestur fundarins undir lið 3.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar, gerð er ein athugasemd við hana, og gefinn viðbótarfrestur til að koma á framfæri athugasemdum áður en hún telst samþykkt.

2. Auðlindaákvæði
Forsætisráðherra rifjar upp stöðu málsins og kynnir eftirfarandi þrjú skjöl sem lögð eru fram: Tillaga að breytingum á greinargerð frumvarps um auðlindaákvæði frá 2016 í ljósi rýni Kristínar Haraldsdóttur, tillaga að einfölduðu auðlindaákvæði, unnin í forsætisráðuneytinu og tillaga stjórnlaganefndar að auðlindaákvæði frá árinu 2011.

Rætt er um hvort og þá hvernig væri hægt að einfalda framsetningu auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Ákvæðið hafi verið orðið nokkuð flókið 2016 og jafnvel innihaldið óþarfa endurtekningar. Rætt er um hvort það gæti verið til bóta að afmarka betur hvenær gjaldtaka vegna nýtingarheimilda auðlinda í þjóðareign eigi við, t.d. þannig að hún einskorðaðist við nýtingu í ábataskyni.

Forsætisráðherra dregur umræðuna saman í lokin og leggur til að greinargerð verði unnin áfram í samræmi við umræður á fundinum. Ákvæðið með greinargerð verði sent formönnum með góðum fyrirvara fyrir næsta fund með það að markmiði að ákvæðið fari inn á samráðsgátt að loknum þeim fundi.

Í lokin er rætt um með hvaða hætti auðlindaákvæði yrði kynnt í samráðsgátt.

3. II. kafli stjórnarskrárinnar, ákvæði er varða forseta Íslands
Ragnhildur Helgadóttir prófessor kynnir minnisblað dags. 8. janúar 2019 um forsetakaflann þar sem sýnt er hvernig mætti færa orðalag ákvæða nær raunverulegri stöðu forseta í stjórnskipuninni. Jafnframt hefur verið tekið tillit til fyrri umræðu í hópnum um þetta efni.

Í umræðunni er staldrað við atriði eins og fjölda stuðningsmanna að baki framboði, lengd kjörtímabils, þak á fjölda kjörtímabila, aðkomu forseta að þingsetningu, staðgengla forseta, bráðabirgðalög og 26. gr.

Forsætisráðherra rifjar upp að á fyrri fundi hópsins hafi komið fram að ekki væri meirihlutavilji fyrir því að gera miklar breytingar á forsetaembættinu. Þess vegna hafi verið lagt af stað með að færa ákvæðin nær raunveruleikanum fyrst og fremst. Ljóst sé að taka þurfi tiltekin atriði til sérstakrar skoðunar eins og þingrof. Fundarmenn eru hvattir til að leita samráðs innan sinna flokka um þau atriði sem hér hafi verið rædd og að því búnu verði þau sett aftur á dagskrá. UBK mun taka saman spurningar til formanna um þau atriði sem helst standa útaf og óskað er eftir að því að hver og einn formaður svari fyrir næsta fund.

4. Önnur mál
Ákveðið er að næsti fundur verði 1. mars kl. 11-14.

Fleira ekki rætt.

 

Fundi slitið kl. 16.15


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta