Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2019 Forsætisráðuneytið

Ný skýrsla um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga

Nefnd um bætur á úrvinnslu og nýtingu tölfræðiupplýsinga hefur nú skilað ítarlegri skýrslu um umbætur á þessu sviði sem ríkisstjórnin fjallaði um á fundi sínum í morgun. Forsætisráðherra skipaði nefndina í kjölfar fundar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launatölfræði 19. janúar 2018.

Helstu niðurstöður og tillögur nefndarinnar eru:

  1. Tekinn verði upp sambærilegur vettvangur samráðs milli aðila í aðdraganda kjarasamninga og tíðkast í Noregi. Nefndin hefur unnið drög að samkomulagi um stofnun Kjaratölfræðinefndar og eru þau í viðauka skýrslunnar.
  2. Komið verði á heildarsöfnun launaupplýsinga beint frá launagreiðendum. Nefndin leggur þó áherslu á að einnig er mikilvægt að efla núverandi launarannsókn samhliða heildargagnasöfnun til að áhætta við breytta gagnasöfnun sé viðunandi og unnt verði að brúa bilið milli ólíkra gagna og tímaraða.
  3. Tilmælum beint til Hagstofu Íslands að skoðað verði hvernig launavísitalan endurspegli hækkandi starfsaldur og aukna menntun. Niðurstöður greiningarinnar verði birtar opinberlega og brugðist við ef þær leiða í ljós bjögun á launavísitölunni.
  4. Hagstofan ljúki við að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið, ÍSTARF95.
  5. Lögð er áhersla á mikilvægi þessa að hafa áreiðanlegar upplýsingar um vinnutíma, sérstaklega unnar stundir.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Skýrslan og þær umbætur sem þar eru lagðar til er að mínu mati mikilvægt framlag til þeirrar víðtæku vinnu sem nú á sér stað á vettvangi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Bætt launatölfræði er meðal atriða sem ég hef lagt ríka áherslu á að verði bætt til frambúðar og ég fagna sérstaklega tillögu nefndarinnar um stofnun Kjaratölfræðinefndar, sem er vettvangur aðila í aðdraganda kjarasamninga líkt og tíðkast m.a. í Noregi.”

Í Noregi starfar nefnd um tölfræðilegar undirstöður kjarasamninga (TBU), þar sem fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, stjórnvalda og hagstofunnar starfa saman og birta töluleg gögn til undirbúnings kjarasamningum og tryggja með því samræmdan skilning á þeim hagtölum sem liggja til grundvallar. Sambærileg samráðsnefnd á Íslandi myndi skapa vettvang fyrir samræður um forsendur í aðdraganda kjarasamninga, jafnt launatölfræði sem aðrar hagtölur, og auka traust milli aðila. Markmiðið er að tryggja sameiginlega sýn aðila á stöðu og þróun launa og efnahagsmála og ýta undir það að tekist sé á um efnisatriði frekar en tölfræðilegar aðferðir eða niðurstöður.

Nefndin var skipuð fulltrúum frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, velferðarráðuneyti, heildarsamtökum á vinnumarkaði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ríkissáttasemjara og Hagstofu Íslands.

Launatölfræði á Íslandi, Skýrsla nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga

Greinargerð Kim Zieschang um launavísitöluna (er einnig í viðauka skýrslunnar)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta