Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áhrif Brexit á mennta-, menningar- og vísindasamstarf

Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með þróun mála í tengslum við þátttöku Breta í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins með það að markmiði að standa vörð um hagsmuni íslenskra styrkþega. Undirbúningur vegna Brexit hófst þegar árið 2016 og eru málefni mennta-, menningar- og vísindasamstarfs til stöðugrar skoðunar í einum af fimm vinnuhópum stjórnvalda er sérstaklega tengjast málefnum Brexit.

„Við hvetjum íslenska námsmenn til þess að horfa áfram til Bretlands líkt og annarra landa þar sem öflugir háskólar eru starfræktir. Íslensk stjórnvöld vilja heldur auka samskipti við Bretland en draga úr þeim, við munum gera okkar til þess að tryggja sem besta samfellu í þessum efnum. Ég hvet íslenska þátttakendur í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins til að rækta áfram tengsl við breska samstarfsaðila á sviði mennta-, menningar og- vísindamála en fylgjast náið með framvindu málsins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf frá sér yfirlýsingu þann 30. janúar sl. þar sem m.a. er tryggt að einstaklingar frá ríkjum ESB og Bretlandi sem eru í skiptinámi á vegum Erasmus+ geti klárað skiptinám sitt. Mat stjórnvalda er að það eigi einnig við um nemendur frá EES-ríkjunum. Þá er tryggt að breskir styrkþegar sem hafa fengið verkefni sín samþykkt fyrir 29. mars 2019 og undirritað samninga þess efnis fái greidda styrki samkvæmt gildandi samningum að því gefnu að bresk stjórnvöld virði áfram skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu.

Bresk stjórnvöld hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að fjármagn hafi verið tryggt til að styrkja breska þátttakendur í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins. Breskir þátttakendur hafa verið hvattir til að halda áfram að sækja um styrki í slíkar áætlanir og segjast bresk stjórnvöld ætla að styðja samþykkt verkefni allan verkefnistímann. Þá kemur fram að bresk stjórnvöld stefni að því að tryggja breskum þátttakendum rétt til að sækja um styrki a.m.k. til ársins 2020.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannsóknamiðstöð Íslandi (Rannís), sem rekur m.a. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi, munu birta upplýsingar sem þessu tengjast.

Sjá einnig: Spurt og svarað um áhrif Brexit á Erasmus+


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta