Áætlun samþykkt um að greiða götu Norðurlandabúa
Samstarfsráðherrar Norðurlandanna samþykktu í gær norræna áætlun sem miðar að því að gera íbúum Norðurlanda enn auðveldara að flytja á milli landa, starfa, stunda nám eða stofna fyrirtæki í öðru norrænu ríki. Áætlunin kveður á um og fjármagnar margvíslegar aðgerðir í þessa veru, þ.m.t. að rafræn skilríki gildi á öllum Norðurlöndunum. Áætlunin gildir fyrir árin 2019 til 2021.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði fundinum sem var hinn fyrsti á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Fundurinn var haldinn í Sjávarklasanum við Grandagarð en málefni hafsins eru eitt af áhersluatriðum Íslands á formennskuárinu. Auk umræðu um fjárveitingar næsta árs og ýmis önnur mál, ræddu samstarfsráðherrarnir mikilvægi þess að Norræna ráðherranefndin setji sér skýr forgangsmarkmið svo norrænt samstarf verði sem markvissast og skili sem mestum árangri. Ráðherrarnir ákváðu að hefja vinnu við nýja framtíðarsýn sem nái til allra norrænna ráðherranefnda sem eru alls tólf talsins.