Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2019 Matvælaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu um  sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins er útbreiðsla sýklalyfjaónæmis ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum en mikilvægt þykir að stemma stigu við frekari útbreiðslu.

Árið 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra tíu tillögum að aðgerðum sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Ráðherrar sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og heilbrigðismála líta svo á að tillögur starfshópsins marki opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Stýrihópur beggja ráðuneyta mun hafa það hlutverk að framfylgja þeirri stefnu og er hópurinn skipaður með eftirfarandi hætti:

  • Linda Fanney Valgeirsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir
  • Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „Sýklalyfjaónæmi er grafalvarlegt vandamál sem verður að takast á við af mikilli alvöru með raunhæfum aðgerðum og víðtæku samstarfi. Sem heilbrigðisráðherra mun ég leggja af mörkum það sem í mínu valdi stendur til að sporna við þessari alvarlegu ógn.“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Með þessari undirritun liggur fyrir opinber stefna íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Það mikilvæga skref markar í mínum huga kaflaskil í þeirri baráttu og ber að þakka fyrir það góða starf sem unnið hefur verið á síðustu árum, m.a. starfshóp sem skilaði tillögum sínum árið 2017 og opinber stefna Íslands byggir nú á.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta