Heilbrigðisráðherra heimsótti Sjúkratryggingar Íslands
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Sjúkratryggingar Íslands, kynnti sér stofnunina og starfsemi hennar, heilsaði upp á starfsfólk og átti fund með forstjóra og sviðsstjórum.
María Heimisdóttir forstjóri, kynnti fyrir ráðherra skipulag og rekstur Sjúkratrygginga Íslands og tæpti á þeim verkefnum sem efst eru á baugi um þessar mundir. Ráðherra fékk einnig kynningu á verkefnamiðuðu vinnuumhverfi og innleiðingu þess hjá stofnuninni.
Sjúkratryggingar Íslands starfa samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og annast framkvæmd þeirra. Hlutverk hennar er einnig að annast samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og sinna greiðslum vegna hennar. Markmið laga um sjúkratryggingar er „að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“ eins og segir í lögunum.