Fallist á sjónarmið Minjastofnunar Íslands um verndun Víkurgarðs
Ekki hótelgarður
Með yfirlýsingu sinni ítreka forsvarsmenn Lindarvatns þann vilja sinn að menningarminjum á svæðinu verði sýnd virðing og sómi. Félagið lagði fram tillögu um að færa inngang sem fyrirhugaður var inn í garðinn og flytja hann norðar nær Aðalstræti. Nýjum inngangi verður einnig bætt við á suðvesturhorni byggingarinnar sem snýr út að Kirkjustræti enda samræmist slíkt deiliskipulagi. Með þessari lausn er tryggt að þegar friðlýst svæði Víkurgarðs verður ekki fyrir álagi vegna starfsemi hótelsins heldur verður gangandi umferð hótelgesta beint um innganga í Kirkjustræti, Aðalstræti og Thorvaldsensstræti við Austurvöll.
Friðlýsing Víkurgarðs
Mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsti Víkurgarð hinn 8. janúar sl. en friðlýsingartillagan sem fallið var frá í dag sneri að stækkun þess svæðis um 8 metra til austurs. Svæðið allt er þó aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar frá árinu 2012. Þar má engu raska né breyta nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Virðing fyrir sögunni
Fátt er nú sem minnir á sögu þessa merka minjastaðar en áhugi á sögu hans hefur aukist mjög að undanförnu – auk menningarsögulegs gildis hefur svæðið einnig tilfinningalegt gildi fyrir fjölda Íslendinga. Í tengslum við byggingaframkvæmdir og þróun byggðar í miðbæ Reykjavíkur á undanförnum áratugum hefur verið þrengt mjög að garðinum. Undir hellulögðu yfirborði garðsins, sem margir kenna nú við Skúla fógeta, liggur rúmlega 1100 ára saga búsetu í Reykjavík. Ætla má að kirkja hafi risið þar fljótlega eftir kristnitöku en grafreitur við hana mun hafa verið notaður að lágmarki um 600 ára skeið. Síðasta kirkjan sem í garðinum stóð var rifin árið 1799. Víkurgarður þjónaði sem kirkjugarður Reykvíkinga fram til ársins 1838 er Hólavallagarður við Suðurgötu var tekinn í notkun. Eftir það var lítið grafið í garðinum en ætla má að jarðneskar leifar um 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli þar.
Framtíðarsýn fyrir svæðið
Það er einhugur um það hjá Minjastofnun Íslands, Lindarvatni, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneyti að marka Víkurgarði meiri virðingarsess og í því skyni verður efnt til hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag hans og hvernig gera má sögulegt hlutverk garðsins sýnilegra fyrir borgarbúa og gesti. Stefnt er að því að auglýsa þá samkeppni nú á vordögum.