Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun 630 milljóna króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landvísu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag hvernig 630 milljónum króna af fjárlögum ársins verður ráðstafað til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Fénu verður varið til að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu annars vegar og til að efla og byggja upp  geðheilsuteymi um allt land.

Auknir möguleikar til að veita þjónustu í heimabyggð

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Austurlands stóðu saman að fréttamannafundi í dag þar sem greint var frá úthlutun fjárins og fjallað um eðli þjónustunnar sem  um ræðir, þ.e. verkefni sálfræðinga í heilsugæslunni og hlutverk geðheilsuteymanna. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hóf fundinn og talaði almennt um nauðsyn þess að landsmenn eigi allir greiðan og góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, hvort sem vandamálin eru af líkamlegum eða geðrænum toga. Snemmtæk íhlutun sé grundvallaratriði og forvarnir eigi að skipa ríkan sess. Sú uppbygging geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu sem nú eigi sér stað stórauki möguleikann á því að veita fólki þessa mikilvægu þjónustu í heimabyggð.

Agnes Agnarsdóttir fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði frá þróun sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslunni á síðustu misserum, Erik Brynjar Schweitz Eriksson yfirlæknir Geðheilsuteymis HH austur sagði frá þjónustu teymisins og Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sagði frá geðheilsuteyminu sem tók til starfa þar fyrir ári síðan og er verið að þróa og byggja upp.

Við ákvörðun um skiptingu fjárins milli heilbrigðisumdæma var tekið mið af áætlunum heilbrigðisstofnana um uppbyggingu og eflingu geðheilsuteyma, íbúafjölda í viðkomandi heilbrigðisumdæmum og eins var horft til til lýðheilsuvísa Embættis landlæknis en þeir varpa ljósi á líðan og heilsu fólks sem hægt er að greina eftir svæðum og nýtast þar með til að greina sértæk svæðisbundin vandamál sem taka þarf tillit til. Unnið er með markmið þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálumleiðarljósi.

Góð heilsa snýst ekki einungis um líkamlegt heilbrigði, heldur einnig og ekki síður góða andlega heilsu. Heilbrigðisþjónustan þarf að taka mið af þessu og byggjast upp í samræmi við það.

Hlutverk heilsugæslunnar er að veita fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og því þarf hún að vera í stakk búin til að takast á við þau heilbrigðisvandamál fólks sem algengust eru, hvort sem þau  vandamál eru af líkamlegum eða geðrænum toga. Uppbygging sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar er liður í því að efla heilsugæsluna hvað þetta varðar. Þannig á fólk að geta fengið meðferð og stuðning vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana í heilsugæslunni.

Geðheilsuteymin eru hugsuð sem annars stigs heilbrigðisþjónusta og þjónusta þeirra er veitt á grundvelli tilvísana. Þar er mætt vanda fólks þegar hann er flóknari en svo að hægt sé að mæta honum innan heilsugæslunnar.

Tvö geðheilsuteymi eru starfandi á höfuðborgarsvæðinu og verið er að undirbúa opnun þess þriðja. Geðheilsuteymi HH Austur er til húsa í Spönginni 35 í Reykjavík. Það veitir þjónustu íbúum Breiðholts, Árbæjar, Grafarvogs, Norðlingaholts, Grafarholts og Kjalarness. Geðheilsuteymi HH Vestur er við Skúlagötu 21 í Reykjavík. Það veitir þjónustu íbúum Háaleitis- og Bústaðahverfis, Laugardals, Hlíða og Vesturbæjar, Miðborgarinnar og Seltjarnarness. Geðheilsuteymi HH Suður mun þjóna íbúum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Skipulag og uppbygging geðheilsuteyma á landsbyggðinni er komin mislangt á veg en undirbúningur hafinn í öllum heilbrigðisumdæmum og vísir að teymum kominn á Austurlandi og Suðurnesjum. Með þeirri fjárveitingu sem hér er kynnt og í samræmi við geðheilbrigðisáætlun er áformað að geðheilsuteymi verði tekin til starfa í öllum heilbrigðisumdæmum fyrir lok þessa árs.

Úthlutun fjárins milli heilbrigðisumdæma er sem hér segir:

Sálfræðingar á höfuðborgarsvæði

45,0

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

322,0

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

46,0

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

21,0

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

50,0

Heilbrigðisstofnun Austurlands

35,0

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

58,0

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

53,0

Samtals

630,0

  • Erik Brynjar Schweitz Eriksson yfirlæknir Geðheilsuteymis HH austur  - mynd
  • Agnes Agnarsdóttir fagstjóri sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - mynd
  • Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands - mynd
  • Frá fundinum í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu - mynd
  • Ráðherra í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 - mynd
  • Úthlutun 630 milljóna króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landvísu - mynd úr myndasafni númer 6

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta