Gildistaka laga um rafrettur 1. mars 2019
Ný lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur öðlast gildi á morgun, 1. mars. Í lögunum er kveðið á um innflutning, markaðssetningu, notkun og öryggi þessa varnings og ráðstafanir til að sporna við notkun barna á rafrettum.
Með setningu laganna hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum verið innleidd að hluta til í íslensk lög.
Samkvæmt lögunum skal ráðherra setja reglugerð með nánari ákvæðum um kröfur varðandi gæði, öryggi, merkingar og innihaldslýsingu rafrettna og áfyllinga fyrir þær. Ráðherra hefur undirritað reglugerð þessa efnis og hefur hún verið send til birtingar í Stjórnartíðindum. Reglugerðin mun taka gildi 1. júní næstkomandi og er með þeim fresti komið til móts við innflytjendur svo þeim gefist svigrúm til að laga sig að kröfum reglugerðarinnar varðandi merkingar umbúða. Þá er lagt til með ákvæði til bráðabirgða að heimilt verði að selja vörur sem ekki standast kröfur reglugerðarinnar en hafa fengið heimild til markaðssetningur fram til 1. september 2019.