Hoppa yfir valmynd
1. mars 2019 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna komin út

Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson - mynd

Skýrsla nefndar forsætisráðherra um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna var kynnt á málþingi á Grand Hótel í morgun.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Ný tegund sjálfvirknivæðingar leiðir til uppbrots og verulegar breytingar á vinnumarkaði eru í vændum
  • Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við að sjá til þess að gæðum af völdum tæknibreytinga verði skipt með sanngjörnum hætti
  • Ísland er tæknilega vel í stakk búið til að taka þátt í fjórðu iðnbyltingunni
  • Opinber stefna hefur mikil áhrif á hvernig samfélög aðlagast og nýta sér tækni
  • Stuðningur við færni í grunntækni vegna þeirra breytinga sem framundan eru
  • Uppbrot vegna tæknibreytinga fjórðu iðnbyltingarinnar skapar siðferðileg álitamál; tækniþróun er ekki siðferðilega hlutlaus


Í skýrslunni hefur þekkingu um þær stórstígu tæknibreytingar sem hafa verið felldar undir fjórðu iðnbyltinguna verið safnað saman, greind og sett í íslenskt samhengi. Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir bæði tækifærum og ógnum gagnvart komandi breytingum og mikilvægt er að umræða um þær eigi sér stað í öllum lögum samfélagsins. Í skýrslunni er tekið mið af þeirri alþjóðlegu umræðu sem nú á sér stað um fjórðu iðnbyltinguna og þá er einnig greining á mögulegum áhrifum sjálfvirknivæðingar á íslenskan vinnumarkað sem nefndin vann með aðstoð Hagstofunnar og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Enn fremur er fjallað um niðurstöður nefndarinnar um mörg þau álitamál sem vakna þegar fjórða iðnbyltingin er rædd.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um sýn stjórnvalda á þau tækifæri og áskoranir sem felast í breytingunum:

„Stjórnvöld gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í að móta stefnu um það hvernig við tökumst á við bæði tækifæri og áskoranir sem blasa við okkur. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og það skiptir máli að við séum undirbúin undir þær tæknibreytingar sem nú þegar eru komnar í ljós með fjórðu iðnbyltingunni. Tæknin er komin til að vera og það skiptir máli hvaða ákvarðanir við tökum núna til að þau gæði sem verða til í kjölfar tæknibreytinga dreifist með réttlátum og jöfnum hætti. Það er í raun stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir að ávinningurinn skili sér til allra.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á nýsköpun og rannsóknir og hefur aukið fjárfestingar og fjárveitingar til málaflokksins verulega. Til stendur m.a. að fjármagna rannsóknir í gegnum markáætlunarsjóð fyrir tæpan milljarð á árunum 2019-2021. Hluti af því sem það fjármagn fer í eru þær samfélagslegu áskoranir sem Vísinda- og tækniráð kynnti í nóvember sl. eftir almannasamráð um hvaða efni mikilvægt væri að tekist yrði á við á vettvangi íslenska vísindasamfélagsins; umhverfismál og sjálfbærni, heilsu og velferð og líf og störf í heimi breytinga.“

Forsætisráðherra skipaði í nefndina um mitt ár 2018 og var markmiðið að greina frá umræðu um fjórðu iðnbyltinguna á alþjóða- vettvangi, afleiðingar hennar fyrir íslenskt samfélag og tækifæri Íslands í þessum breytingum.

Formaður nefndarinnar, Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar en Lilja Dögg Jónsdóttir, hagfræðingur, kynnti möguleg áhrif á íslenskan vinnumarkað og Dr. Kristinn Þórisson, prófessor við HR, fór yfir tæknilegar forsendur fjórðu iðnbyltingarinnar.

Í pallborðsumræðum tóku þátt þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur, Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum, og Guðni Tómasson, fjölmiðlamaður, sem stýrði umræðum.


Skýrsla nefndarinnar, Ísland og fjórða iðnbyltingin


  • Lilja Dögg Jónsdóttir - mynd
  • Dr. Kristinn Þórisson - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - mynd
  • Skýrsla nefndar um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna komin út - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta