Framlagningu frumvarps til lyfjalaga frestað til hausts
Frumvarpsdrögin eru afar viðamikil, enda um drög að nýrri heildarlöggjöf um lyfjamál að ræða, með samtals 102 lagagreinum og ýtarlegri greinargerð. Drögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 21. febrúar síðastliðinn. Umsagnarfrestur var til 3. mars og bárust 114 umsagnir.
Mikilvægt er að vinna úr þeim umsögnum sem bárust og að mati ráðherra er ástæða til að lengja samráðsferlið áður en frumvarpið verður lagt fullbúið fyrir Alþingi í byrjun þings næsta haust. Enn fremur er horft til þess að skýrsla sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur að fyrir ráðuneytið með úttekt á núverandi fyrirkomulagi lyfsölu hér á landi er ekki fullbúin. Sú skýrsla mun nýtast við lokavinnslu frumvarpsins og því mikilvægt að lokagerð hennar liggi fyrir áður en frumvarpið verður lagt fram. „Þetta er mjög mikilvægt mál fyrir alla landsmenn. Meginmarkmiðið með heildarlöggjöf um lyfjamál er að tryggja nægt framboð lyfja með öryggi sjúklinga að leiðarljósi, hagkvæma dreifingu lyfja og eðlilega samkeppni. Þetta er flókið verkefni sem þarf að vinna af kostgæfni“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.