Góður árangur Íslands í frammistöðumati ESA
Samkvæmt nýbirtu frammistöðumati Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) jafna íslensk stjórnvöld sinn besta árangur frá upphafi mælinga. Þetta er 43. frammistöðumat ESA sem gefið er út tvisvar á hverju ári. Í því er tekinn saman árangur EFTA-ríkjanna þriggja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) við innleiðingu EES-gerða.
Innleiðingarhalli Íslands fer niður í 0,5%, alls fjórar tilskipanir töldust óinnleiddar, miðað við stöðu innleiðinga á tilskipunum 30. nóvember 2018 þegar úttektin fór fram. Ísland nær þar með betri árangri en Liechtenstein (0,6%) en Noregur kom best út úr matinu (0,1%). Innleiðingarhalli EFTA-ríkjanna innan EES var 0,4% sem er besti árangur ríkjanna frá upphafi.
Frammistaða Íslands þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum hefur batnað mikið á síðustu misserum. Í frammistöðumatinu hvetur ESA íslensk stjórnvöld að halda áfram á sömu braut, en í síðasta mati var innleiðingarhalli Íslands 1% og þar áður 1,8%. Til samanburðar náði innleiðingarhalli Íslands hámarki á fyrri hluta ársins 2013, þegar hann nam 3,2%.
Frammistaða íslenskra stjórnvalda við innleiðingu á reglugerðum hefur einnig batnað á síðustu árum. Alls töldust 35 reglugerðir óinnleiddar og versnaði frammistaðan lítillega frá síðasta mati. Þar af voru 28 reglugerðir á sviði fjármálaþjónustu.
Samhent átak innan stjórnsýslunnar við bætta framkvæmd EES-samningsins orsakar þessa jákvæðu breytingu, en m.a. hefur verið unnið að því að auka getu ráðuneyta til að vinna að innleiðingu EES-gerða. Efling frammistöðu Íslands við framkvæmd samningsins er hluti af stefnu stjórnvalda um bætta framkvæmd EES-samningsins. Á fundi miðvikudaginn næstkomandi verður enn fremur kynntur nýr opinn gagnagrunnur þar sem EES-gerðir eru aðgengilegar á einum stað.