Vísinda- og tækniráð lætur vinna úttekt um nýsköpunarstyrki eftir landshlutum
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mælti fyrir tillögu um úttekt á opinberu fjármagni til rannsókna, þróunar og nýsköpunar eftir landshlutum, á fundi Vísinda- og tækniráðs. Ráðið kom saman í 36. sinn í Norræna húsinu og er fundurinn fyrsti fundur nýs ráðs.
Ráðið samþykkti tillögu forsætisráðherra og mun úttektin snúast um hvernig opinbert fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar dreifist eftir landshlutum. Slík úttekt mun veita mikilvægar upplýsingar til stefnumótunar og nýtist sem grunnur að nánara mati á árangri af fjárfestingum til þessa málaflokks. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, mun vinna úttektina í samstarfi við Byggðastofnun, Rannís, Nýsköpunarmiðstöð og Hagstofu Íslands og mun hún taka til tímabilsins 2014-2018.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Ég tel mjög mikilvægt að uppbygging í nýsköpun og rannsóknum verði lykilþáttur í allri stefnumótun í byggðamálum. Þær upplýsingar sem Vísinda- og tækniráð hefur ákveðið að kalla eftir hér í dag munu gera stjórnvöldum kleift að fá betri yfirsýn yfir tækifæri til nýsköpunar á landinu öllu og að möguleikinn til að búa til eitthvað nýtt sé til staðar, sama hvar fólk býr.”
Nemendur sem fengu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands kynntu verkefni sitt á fundinum og tillögur skýrslu starfshóps um fjórðu iðnbyltinguna og helstu álitamál sem tengjast henni voru kynntar af formanni hópsins, Dr. Hugin Frey Þorsteinssyni. Farið var yfir framkvæmd núverandi stefnu, og aðgerða á grunni hennar sem komnar eru langt á veg og er fyrsta verkefni nýs ráðs að undirbúa nýja stefnu sem taka á gildi og samþykkja á næsta ári, væntanlega á fyrsta fundi ráðsins árið 2020. Endurskoðun á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs stendur yfir og á fundinum var greint frá vinnu verkefnishópsins sem skila á til forsætisráðherra skýrslu sinni í haust.
Vísinda- og tækniráð mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi og hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í því skyni að treysta stoðir íslensks samfélags. Forsætisráðherra er formaður ráðsins en auk hennar sitja mennta- og menningarmálaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra í ráðinu.