Yfirlýsing vegna rekstrar og endurnýjunar sjúkrabíla
Sjúkratryggingar Íslands hafa að ósk heilbrigðisráðuneytisins fengið opnun útboðs vegna kaupa á sjúkrabílum frestað fram í ágúst. Ástæðan eru samningaviðræður milli ráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi sem þarf að leiða til lykta, en forsenda þess að útboð geti farið fram er að samkomulag náist í viðræðum milli aðila.
Heilbrigðisráðuneytið og Rauði krossinn hafa sammælst um eftirfarandi yfirlýsingu til upplýsingar um stöðu viðræðnanna:
Yfirlýsing heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi
Heilbrigðisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi hafa um alllangt skeið unnið að samkomulagi varðandi samning sem í gildi hefur verið um útvegun og rekstur sjúkrabíla á hendi Rauða krossins. Aðilar eru sammála um að meginmarkmiðið verði að vera að tryggja landsmönnum áfram örugga sjúkraflutninga og sjá til þess að unnt verði að ráðast sem fyrst í nauðsynlega endurnýjun sjúkrabíla. Nauðsynlegt sé að skoða allar leiðir að lausnum til lengri og skemmri tíma litið þannig að rekstur og endurnýjun sjúkrabílaflotans geti komist í eðlilegt horf hið allra fyrsta.
Reykjavík 8. mars 2019
Heilbrigðisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi