Hoppa yfir valmynd
12. mars 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar 63. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði 63. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í dag. Fundurinn var settur í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær og stendur til 22. mars. Þema fundarins að þessu sinni er mikilvægi almannatrygginga og uppbyggingar samfélagslegra innviða í þágu kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna (e. social protection systems, access to public services and sustainable infrastructure for gender equality and the empowerment of women and girls).

Í ávarpi sínu fagnaði forsætisráðherra áherslu fundarins og vakti hún sérstaklega athygli á fæðingarorlofi beggja foreldra og mikilvægi leikskólastigsins. „Árangur Íslands og hinna Norðurlandanna spratt ekki upp úr þurru. Hann er afleiðing af markvissri fjárfestingu í samfélagslegum innviðum, sem aftur eru forsenda heilbrigðs efnahags,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra áréttaði einnig mikilvægi þess að ríkisstjórnin og alþjóðasamtök bregðist við þeim veruleika sem #églíka eða #metoo hreyfingin afhjúpaði. „Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing almenns kynjamisréttis og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að binda enda á það,“ sagði Katrín.

Fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sækja tæplega tíu þúsund manns alls staðar að úr heiminum og eru viðburðir í opinberri dagskrá tæplega þrjú hundruð talsins. Samhliða henni standa frjáls félagasamtök að yfir 400 viðburðum í sérstakri dagskrá.

Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 og stendur fyrir þremur viðburðum í samstarfi við ráðuneyti jafnréttismála á Norðurlöndunum. Íslensk stjórnvöld eiga einnig samstarf um viðburð um þátttöku kvenna í friðarumleitunum í samstarfi við Íslandsdeild norrænna samtaka kvenna um friðsamlegar lausnir á vopnuðum átökum (Nordic Women Mediators).

 

Ræða forsætisráðherra á 63. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta