Viðræðum er lokið um fríverslunarsamning við Bretland til bráðabirgða
Innan við tvær vikur eru nú í formlegan útgöngudag Bretlands úr ESB og ekki liggur enn fyrir hvernig útgöngu verði háttað, hvort hún verði með eða án útgöngusamnings eða hvort útgöngudegi verði frestað. Enda þótt frestun sé líkleg er enn einhver hætta á útgöngu án samnings 29. mars nk.
Íslensk stjórnvöld halda því áfram að undirbúa sig fyrir mismunandi sviðsmyndir og er bráðabirgðasamningurinn mikilvægur liður í þeirri undirbúningsvinnu. Unnið er að því að tryggja að bráðabirgðasamningurinn geti tekið gildi strax við útgöngu ef þörf væri á því. Einnig hafa íslensk stjórnvöld lokið samningaviðræðum um réttindi íslenskra ríkisborgara sem búa í Bretlandi og á sviði flugmála. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga tekur aftur á móti við bráðabirgðatímabil þar sem EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB halda áfram að gilda um Bretland til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu.
Á þessu stigi er ekki samið um framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Markmið samningsins er að viðhalda gildandi kjörum þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styrkja enn frekar og byggja upp sambandið við Bretland eftir útgöngu.
Breska ríkisstjórnin hefur nýverið birt almenna tollskrá til bráðabirgða sem mun gilda ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings. Tollskráin mun gilda í allt að 12 mánuði og gilda gagnvart öllum aðildarríkjum WTO. Í þeim tilvikum sem hin almenna tollskrá veitir betri tollkjör en fríverslunarsamningar Bretlands munu innflytjendur njóta þeirra kjara sem betri eru.