Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á fundi um samkeppnismat OECD
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur samið við OECD um að framkvæma samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Samkeppniseftirlitið auk annarra ráðuneyta og stofnana.
Af þessu tilefni var haldinn opinn fundur um samkeppnismatið, en tilgangur þess er að greina og meta gildandi regluverk með tilliti til þess hvort það hamli samkeppni eða feli í sér óþarflega íþyngjandi reglubyrði.
Meðal ræðumanna á fundinum var Ulrik Vestergaard Knudsen, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir hélt opnunarræðu fundarins og sagði m.a. að kostir samkeppnismats og ábati af betra regluverki væru miklir og þeir hefðu í öðrum löndum leitt til aukins hagvaxtar og betri lífsgæða fyrir almenning.