Leiðbeiningar fyrir handhafa breskra ökuskírteina
Eftirfarandi mun gilda fyrir handhafa breskra ökuskírteina sem heimsækja Ísland eða eru búsettir á Íslandi ef af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verður.
Þeir sem heimsækja Ísland
Ferðamenn munu áfram geta ekið á Íslandi með gild bresk ökuskírteini meðan á ferðalagi stendur án þess að hafa alþjóðleg ökuskírteini meðferðis.
Handhafar breskra ökuskírteina búsettir á Íslandi
Handhafar breskra ökuskírteina sem búsettir eru á Íslandi geta ekið á Íslandi í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins. Þeir geta einnig skipt gildum breskum skírteinum út fyrir íslensk. án þess að taka ökupróf að nýju, fram til þess dags þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur í hyggju að gera breytingar á reglugerð um ökuskírteini til að tryggja að handhafar breskra ökuskírteina, sem búsettir eru á Íslandi, geti áfram ekið á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár eftir útgöngudag. Einnig er stefnt að því að þeir geti í að minnsta kosti jafn langan tíma skipt ökuskírteinum sínum fyrir íslensk skírteini án þess að þurfa að taka ökupróf að nýju. Þetta myndi einnig gilda um réttindi til aksturs stórra ökutækja í atvinnuskyni.