Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Ásta Valdimarsdóttir verður ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu

Ásta Valdimarsdóttir - mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Ástu Valdimarsdóttur, núverandi framkvæmdastjóra hjá Alþjóðahugverkastofnuninni í Genf, ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu til fimm ára. Ásta var meðal fjögurra umsækjenda sem lögskipuð hæfnisnefnd mat hæfasta til að gegna embættinu.

Ásta er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum, bæði hérlendis og erlendis. Síðastliðin níu ár hefur Ásta starfað hjá Alþjóðahugverkastofunni (WIPO) sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, fyrst sem yfirmaður framkvæmdasviðs alþjóðlegu vörumerkjaskrifstofunnar og síðan sem framkvæmdastjóri skrifstofunnar. Samhliða störfum sínum hefur Ásta sótt ýmis námskeið í stjórnun, stefnumótun, samskiptahæfni o.fl. og stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Ásta var forstjóri Einkaleyfastofu á árunum 2001 – 2010 en hafði áður starfað þar sem yfirlögfræðingur um fimm ára skeið. Fyrir þann tíma starfaði hún sem sérfræðingur í iðnaðarráðuneytinu og sem aðalfulltrúi og staðgengill sýslumannsins á Ísafirði.

Í umsögn hæfnisnefndar segir að Ásta hafi til að bera augljósa leiðtogahæfileika og góða færni í mannlegum samskiptum. Þekking hennar og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu sé mjög góð, hún búi að verulegri reynslu af stjórnun, starfsmannahaldi og rekstri og enn fremur hafi hún mikla reynslu af alþjóðasamstarfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta