Fjármálaáætlun 2020-2024: Loftslagsmál, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi í forgrunni
Meðal markmiða fjárveitinga til loftslagsmála er að tryggja að unnið sé að því að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í loftslagsmálum á alþjóðavettvangi og því markmiði ríkisstjórnarinnar að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Fjármagninu er þannig m.a. ætlað að stuðla að og flýta orkuskiptum í samgöngum, auka kolefnisbindingu með frekara umfangi uppgræðslu, endurheimt vistkerfa og nýskógrækt, og stuðla að nýsköpun og fræðslu.
Fjármunum til náttúruverndar verður annars vegar varið til að halda álagi áfangastaða vegna ágangs ferðamanna á náttúruverndarsvæðum innan þolmarka, m.a. með uppbyggingu viðeigandi innviða og landvörslu. Hins vegar er þeim ætlað að fylgja eftir áformum stjórnvalda um að friðlýsa um 50 náttúruverndarsvæði á næstu fimm árum. Þar er meðtalin stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands eins og kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar.
Samkvæmt fjármálaáætlun verður 100 milljónum króna varið árlega til hringrásarhagkerfisins næstu fimm árin. Er áhersla lögð á aðgerðir sem ýta undir ábyrga framleiðslu og neyslu, bætta nýtingu, endurnýtingu og endurvinnslu sem mun draga verulega úr myndun úrgangs frá því sem nú er.