Vinnuhópur stofnaður um stórframkvæmdir í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu
Stofnaður verður vinnuhópur í samstarfi ríkisstjórnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), sem hefur það að markmiði að finna fjármögnunarleiðir fyrir stórframkvæmdir í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti ákvörðun þessa efnis í málstofu um samgöngumál á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið er í dag.
Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni að samningsdrög yrðu tilbúin fyrir sumarið um skiptingu fjármögnunar verkefnisins milli ríkis og sveitarfélaga. „Þetta verða mikil tímamót enda verður á grunni væntanlegs samkomulags hægt að hefjast handa við ríflega 100 milljarða uppbyggingu á þéttbýlasta svæði landsins,“ sagði ráðherra.
Aukið fé til framkvæmda í samgöngum
Ráðherra sagði stórsókn vera framundan í samgöngumálum þjóðarinnar. Í nýkynntri fjármálaáætlun hafi framlög til samgöngumannvirkja verið hækkuð verulega frá fyrri samgönguáætlun og alls muni fjárfestingar nema ríflega 120 ma.kr. á fimm ára tímabili áætlunarinnar. Megintilgangurinn væri að fjárfesta í öryggi í samgöngum og vegakerfinu víða um land en fjárfestingin komi einnig á góðum tíma fyrir hagkerfið.
„Meðal framkvæmda sem unnið verður að eru Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, tvöföldun Reykjanesbrautar að Reykjanesbæ, breikkun Suðurlandsvegar að Selfossi og Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Þá verður lokið við gerð Dýrafjarðagangna og Dettifossveg,“ sagði Sigurður Ingi en fleiri verkefni væru tíunduð í nýsamþykktri samgönguáætlun.
Hann sagði að samgönguáætlun þurfi á hinn bóginn að uppfæra með haustinu í ljósi nýrrar fjármálaáætlunar. Svigrúmið hafi verið aukið með talsverðri aukningu í fjárframlagi á ári og það verði nýtt til að hraða framkvæmdum á stofnbrautum sem þola ekki bið.
Tillögur um fjármögnun kynntar bráðlega
Ráðherra sagði það verða verkefni nýrrar samgönguáætlunar að taka mið af niðurstöðu starfshóps um flýtiframkvæmdir með gjaldtöku. Þar yrði einnig fjallað um möguleg samstarfsverkefni (PPP) í samgönguframkvæmdum þar sem umferð er næg til að standa undir slíku. Sagði Sigurður Ingi að tillögur starfshóps um fjármögnun á vegakerfinu verði formlega kynntar í næstu viku.
„Það eru nokkrir kostir í boði þegar kemur að því að fjármagna vegakerfið. Mitt markmið hefur alltaf verið að byggja upp vegakerfið. Mitt markmið hefur ekki verið veggjöld í sjálfu sér. Ég hef sagt að æskilegt er að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar og bankanna. Sú leið er hagkvæmari fyrir ríkið en aðrir kostir vegna lægri fjármagnskostnaðar. Hins vegar geta samvinnuverkefni (PPP) hentað vel í stórum og vel skilgreindum nýframkvæmdum. Dæmi um slík verkefni eru Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Þá væri hægt að flýta brú yfir Hornafjarðafljót og veg yfir Öxi með gjaldtöku að hluta, sé vilji til þess. Á þessum leiðum skiptir máli að hafa val um aðra leið,“ sagði Sigurður Ingi.
Almenningssamgöngur verði raunhæfur kostur
Ráðherra fjallaði einnig í ræðu sinni um mikilvægi almenningssamgangna á landsbyggðinni og sagði þær þurfa að vera raunhæfur valkostur fyrir landsmenn og jafnframt að stuðla að bættum umhverfisgæðum með því að draga úr neikvæðum áhrifum, s.s. hljóðvist, svifryk og loftgæði.
Sigurður Ingi sagði að í nýrri stefnu um almenningssamgöngur undir heitinu Ferðumst saman væri lagt til samhæft, heildstætt kerfi sem sé jafnframt hagkvæmt og skilvirkt, með sameiginlegri upplýsingagátt fyrir áætlunarbíla, flug og ferjur með rauntíma upplýsingamiðlun og skýru fargjaldakerfi. Drög að stefnunni hafi verið til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda og nú væri verið að vinna úr umsögnum. Að því loknu hæfist vinna við að koma stefnunni í framkvæmd. Fyrsta viðfangsefnið er að semja við landshlutasamtök um rekstur á almenningsvögnum milli byggða.
Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Nánari umfjöllun um XXXIII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga