Forsætisráðherra fundar með formanni Polisario
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með Brahim Ghali í Stjórnarráðinu í gær. Ghali er formaður Polisario, sjálfstæðishreyfingar Vestur-Sahara en Alþingi samþykkti árið 2014 þingsályktunartillögu um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.
Ghali fór yfir stöðu þeirra viðræðna sem Horst Köhler, fyrrverandi forseti Þýskalands, stýrir undir merkjum Sameinuðu þjóðanna um framtíð Vestur-Sahara. Allt að 200 þúsund flóttamenn frá Vestur-Sahara hafa dvalið árum saman í Alsír en meðal annars hefur verið krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Vestur-Sahara.