Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Aukin heilbrigðisþjónusta við fanga

Fangelsið Hólmsheiði. - myndLjósm. Karl Petersson

Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu við fanga eru aukin og aðgengi að þjónustunni bætt með meiri viðveru heilbrigðisstarfsfólks samkvæmt nýgerðum samningi Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Hólmsheiði. Samningsgerð er hafin um stórbætta geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum landsins.

 

Á Hólmsheiði sitja fangar sem áður sátu í kvennafangelsinu í Kópavogi, fangelsinu við Skólavörðustíg og gæsluvarðhaldsfangar sem áður voru vistaðir í fangelsinu á Litla Hrauni. Rýmafjöldi á Hólmsheiði er sveigjanlegur en þar geta verið allt að 60 fangar eftir atvikum.

Samkvæmt samningnum skulu læknar og hjúkrunarfræðingar veita heilbrigðisþjónustu á Hólmsheiði alla virka daga, meðal annars með reglulegri móttöku til að sinna almennri heilsugæsluþjónustu. Læknir skal vera með fasta viðveru í fangelsinu tvisvar í viku að jafnaði og hjúkrunarfræðingur þrjá til fjóra daga í viku. Fangar skulu njóta sambærilegrar heilsugæsluþjónustu og almennt gerist, eftir því sem aðstæður í fangelsi leyfa. Á dagvinnutíma skal veitt símaþjónusta sambærileg við almenna símaþjónustu heilsugæslustöðva en þess utan fá fangar þá almennu heilbrigðisþjónustu sem í boði er á viðkomandi þjónustusvæði. Fangar skulu njóta þjónustu Læknavaktar eða bráðamóttöku Landspítalans eftir því sem á þarf að halda og greiðir þá heilsugæslan hlut viðkomandi sjúklings samkvæmt samningnum.

Miðað er við að samningurinn um heilbrigðisþjónustu á Hólmsheiði verði fyrirmynd annarra samninga um þjónustu við fanga í öðrum fangelsum landsins. Framlög vegna þjónustunnar á Hólmsheiði aukast með samningnum úr 22 milljónum króna í 33 milljónir.

Samningsgerð um geðheilbrigðisþjónustu við fanga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherraHeilbrigðisráðuneytið hefur falið Sjúkratryggingum Íslands gerð samnings um geðheilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Hólmsheiði samkvæmt skilgreindum markmiðum. Miðað er við að samið verði við Landspítalann um að sérfræðingar geðdeildar sinni þjónustunni og að byggt verði á teymisvinnu með aðkomu lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Gerðir verða sambærilegir samningar um geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öðrum fangelsum og er áætlað að ljúka þeim innan árs. Er gert ráð fyrir að þjónusta verði veitt af sjúkrahúsi í heilbrigðisumdæmi viðkomandi fangelsis með mögulegri aðkomu geðdeilda Landspítalans eða Sjúkrahússins á Akureyri eftir atvikum.

Verulega hefur skort á að fangar hér á landi njóti viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu og hafa Umboðsmaður Alþingis og pyntingavarnanefnd Evrópuráðsins vakið athygli á þeim misbresti. Með fyrirhuguðum samningum ætti að takast að mæta að fullu athugasemdum sem þessir aðilar hafa gert við þjónustuna.

Auknir fjármunir til efla geðheilbrigðisþjónustu við fanga eru tryggðir í fjárlögum og er áætlað að verja til þessa 55 milljónum króna á þessu ári.

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla

Umbætur í heilbrigðiskerfinu sem unnið er að eiga að skila sér til allra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, föngum þar með töldum. Ég er þess fullviss að þær breytingar sem í farvatninu eru verði mikið framfaraskref í heilbrigðisþjónustu við fanga“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta