Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherra Póllands

Jacek Czaputowicz, utanríkisráðherra Póllands, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra - myndUtanríkisráðuneytið

Tvíhliða samskipti, málefni norðurslóða og alþjóðamál voru efst á baugi á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Jacek Czaputowicz, utanríkisráðherra Póllands, sem fram fór á Kolabrautinni í Hörpu í hádeginu í dag.

Náin og góð samskipti eru á milli Íslands og Póllands, viðskiptin á milli landanna eru blómleg og greiðar flugsamgöngur frá pólskum borgum hingað til lands. Þá eru um sautján þúsund Pólverjar búsettir hér á landi. Í heimsókn sinni hittir Czaputowicz meðal annars landa sína sem búa á Íslandi. 

„Framlag Pólverja til íslensks samfélags er bæði mikið og margþætt. Pólverjar sem hér búa og starfa hafa átt ríkan þátt í efnahagsuppgangi undanfarinna ára og á erfiðum tímum eftir hrun sýndu pólsk stjórnvöld Íslandi mikið vinarþel með lánafyrirgreiðslu þegar aðrir synjuðu okkur um slíkt. Það er mér því mikið ánægjuefni að taka á móti pólska ráðherranum og ræða við hann um það góða samband sem er á milli Íslands og Póllands. Ég er viss um að við getum þróað það enn frekar og fært inn á fleiri spennandi brautir“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. 

 Auk þess að ræða tvíhliða samskipti ríkjanna, þar sem seinkun á afhendingu nýs Herjólfs bar meðal annars á góma, voru einnig til umræðu málefni norðurslóða og formennska Íslands í Norðurskautsráðinu, sem hefst í næsta mánuði. Pólland hefur átt áheyrnaraðild að ráðinu frá stofnun þess árið 1996. Síðastliðin ár hefur Pólland lagt ríkari áherslu á málefni norðurslóða og mótað sérstaka norðurslóðastefnu í því skyni. Þá ræddu ráðherrarnir starf Eystrasaltsráðsins ásamt yfirstandandi formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, málefni EES-samningsins og önnur mikilvæg viðfangsefni á alþjóðavettvangi voru einnig til umræðu á fundi ráðherranna. Þá ræddu þeir um öryggis- og varnarmál og samstarfið í Atlantshafsbandalaginu en ráðherrarnir sóttu báðir utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Washington í gær. Loks voru mannréttindi til umræðu og málefni mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna en þar á Ísland sæti.

Heimsókn Czaputowicz hér á landi lýkur á morgun. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta