Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2019 Forsætisráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Ráðherranefnd um matvælastefnu fyrir Ísland

    - myndJohannes Jansson/norden.org

Ákveðið hefur verið að vinna áfram að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Umboð verkefnisstjórnar, sem unnið hefur að áfangaskýrslu um málefnið frá því í ágúst 2018, verður endurnýjað og fjölgað í verkefnisstjórninni. Jafnframt verður sett á fót sérstök ráðherranefnd til að fjalla um matvælastefnu fyrir Ísland enda mun matvælaframleiðsla verða eitt af stóru viðfangsefnum stjórnmálanna í framtíðinni og varðar mótun stefnunnar málefnasvið fjölmargra ráðuneyta. Fast sæti eigi forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og heilbrigðisráðherra. Aðrir ráðherrar taki sæti á fundum nefndarinnar eftir því sem tilefni er til. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, aukið virði afurða, bættan rétt neytenda og að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði verkefnisstjórn í ágúst 2018 um mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum ráðherra, Bændasamtaka Íslands, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum verslunar- og þjónustu og Neytendasamtökunum. Verkefnisstjórnin skilaði ráðherra áfangaskýrslu í lok mars 2019.

Við mótun matvælastefnu verði lögð áhersla á tengsl matvæla og lýðheilsu og samspil matvælaframleiðslu og loftslagsbreytinga:

  • Að stefnan fjalli um tengsl matvæla og lýðheilsu.
    • Sérstaklega verði fjallað um áhrif mataræðis á heilsu.
  • Að stefnan skuli styðja við og efla íslenska matvælaframleiðslu.
    • Sérstaklega verði fjallað um uppruna- og gæðamerkingar, nýsköpun og menntun.
  • Að stefnan fjalli um samspil matvælaframleiðslu og loftslagsbreytinga.
    • Sérstaklega verði fjallað um hvernig draga megi úr kolefnisfótspori matvælaframleiðslu. Hvernig ná megi því marki að merkja öll matvæli með kolefnisfótspori. Hvernig Ísland takist á við áhrif loftslagsbreytinga á innflutt matvæli.
  • Að stefnan stuðli að því að skapa samstöðu í umhverfismálum.
    • Sérstaklega verði fjallað um matarsóun, ábyrga notkun plasts og endurvinnslu og aukna fræðslu og menntun.
  • Að stefnan stuðli að því að styrkja stöðu neytenda á matvælamarkaði.
    • Sérstaklega verði fjallað um að bæta uppruna- og gæðamerkingar, aukna fræðslu og menntun og eflingu eftirlits.
  • Að vernda og efla ímynd Íslands.
    • Sérstaklega verði fjallað um ferða- og matvælalandið Ísland og útflutning með áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.


Með vísan til áherslna ríkisstjórnarinnar í málaflokknum var ákveðið að endurnýja umboð verkefnisstjórnar og fjölga fulltrúum. Auk þeirra aðila sem þegar hafa tekið sæti í verkefnisstjórn verður bætt við fjórum fulltrúum, þremur tilnefndum af forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sameiningu og þá verði Samtökum ferðaþjónustunnar boðið að tilnefna einn fulltrúa. Verkefnisstjórn er falið að hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila og mun eftir þörfum kalla til sérfræðinga á þeim fjölmörgu málasviðum sem þurfa að koma til skoðunar við gerð matvælastefnu m.a. frá þeim ráðuneytum sem tengjast málefnasviðinu. Verkefnisstjórnin mun jafnframt vinna tillögur að aðgerðaáætlun til að ná fram markmiðum stefnunnar.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
12. Ábyrð neysla og framleiðsla
9. Nýsköpun og uppbygging
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta