Slegið í gegn í nýjum Dýrafjarðargöngum
Mikilvægum áfanga var náð í dag þegar slegið var í gegn í nýjum Dýrafjarðargöngum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sprengdi síðustu sprenginguna í göngunum við sérstaka hátíðarathöfn að viðstöddu fjölmenni.
Dýrafjarðargöng stytta leiðina milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar rúmlega 27 kílómetra og koma í staðinn fyrir einn hæsta og hrikalegasta fjallveg landsins, Hrafnseyrarheiði. Um er að ræða mikilvæga samgöngubót á Vestfjörðum en áætluð verklok eru haustið 2020.
„Verkið gengur vel og þegar einum áfanga er náð þá eykst þrýstingur á að aðrar samgöngurbætur haldi áfram. Vegur um Dynjandisheiði er á áætlun og vegur um Gufudalssveit þolir ekki lengri bið,“ sagði Sigurður Ingi að athöfninni lokinni.
Göngin 5,6 km löng
Framkvæmdin felur í sér lagningu nýs vegar og nýrra ganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum, frá Mjólkárvirkjun í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú; 8,1 km af nýjum vegi og 5,6 km löng göng. Því er um að að ræða 13,7 km langt vegstæði. Stytting á Vestfjarðarvegi verður 27,4 km.