Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Tímamótasamstarf norrænna þjóða á sviði lyfjamála staðfest

Frá vinstri: Carina Ekornes, Svandís Svavarsdóttir og Eva Egesborg - myndHeilbrigðisráðuneytið

Samstarf Íslands, Danmerkur og Noregs á sviði lyfjamála var staðfest með undirritun samkomulags í Reykjavík í gær. Lægra lyfjaverð, öruggara framboð lyfja og þar með aukið öryggi sjúklinga er sá ávinningur sem stefnt er að með samstarfinu. Með þessu eru orðin að veruleika áform um samvinnu sem hafa verið á dagskrá í norrænu samstarfi um langt árabil.

Undirritun fór fram í Ráðherrabústaðnum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra staðfesti samkomulagið fyrir Íslands hönd, ásamt Evu Egesborg Hansen sendiherra Danmerkur í Reykjavík og Carinu Ekornes, staðgengli sendiherra Noregs í Reykjavík.

Sterkari saman

Þess er vænst að þjóðirnar geti styrkt stöðu sína sem kaupendur á lyfjamarkaði með því að sameina krafta sína. Með samlegðaráhrifum megi ná aukinni hagkvæmni sem stuðli að lægra lyfjaverði, tryggi betur fullnægjandi framboð lyfja og dragi úr hættu á lyfjaskorti og auðveldi enn fremur innleiðingu nýrra lyfja á viðunandi verði. „Það er áhyggjuefni um allan heim að sum ný lyf eru svo dýr að kostnaður stendur innleiðingu þeirra fyrir þrifum. Þetta er vandamál hér á landi eins og hjá samstarfsþjóðunum. Það er mikilvægt hagsmunamál að ná verðinu niður og það gerum við með samstarfi við aðra“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Í sama streng tekur Bent Høie í tilkynningu á vef norska heilbrigðisráðuneytisins um málið.

Bætt afhendingaröryggi lífsnauðsynlegra lyfja

Lyfjaskortur hefur verið vaxandi vandamál á liðnum árum, hér á landi sem annars staðar og á það einkum við um ýmis eldri lyf sem ekki njóta lengur einkaleyfis. Í samkomulagi þjóðanna er lögð áhersla á að bæta afhendingaröryggi lífsnauðsynlegra lyfja sem hafa verið lengi á markaði og mikil verðsamkeppni ríkir um. 

Fyrsta skref þessa samstarfs hefur þegar verið tekið með sameiginlegu útboði þjóðanna þriggja á nokkrum völdum lyfjum.

  • Tímamótasamstarf norrænna þjóða á sviði lyfjamála staðfest - mynd úr myndasafni númer 1
  • Tímamótasamstarf norrænna þjóða á sviði lyfjamála staðfest - mynd úr myndasafni númer 2
  • Tímamótasamstarf norrænna þjóða á sviði lyfjamála staðfest - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta