Auglýsing um veitingu leyfa til hrefnuveiða 2019-2023
Með auglýsingu þessari vill ráðuneytið gefa aðilum kost á að sækja um leyfi til hrefnuveiða en skilyrði fyrir veitingu leyfanna koma fram í reglugerð nr. 163, 30. maí 1973, um hvalveiðar, með síðari breytingum.
Skilyrði fyrir veitingu leyfa til hrefnuveiða eru eftirfarandi:
- Að minnsta kosti einn úr áhöfn hafi reynslu af hrefnuveiðum. Við mat á því hvort aðili hafi reynslu af hrefnuveiðum er sú krafa gerð að aðili hafi a.m.k. verið samfellt í þrjá mánuði skytta á hrefnuveiðibát. Heimilt er Fiskistofu að meta jafngilda annarskonar reynslu eða þekkingu svo að hún fullnægi áskilnaði skv. þessari grein.
- Skyttur sem annast veiðar og aflífun dýra skulu hafa sótt viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssa og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar. Auk þessa skal skytta hafa fullnægjandi skotvopnaleyfi.
Þá er kveðið á um veiðiaðferðir og veiðibúnað sem skip sem ætluð eru til hrefnuveiða skulu vera búin í ofangreindri reglugerð um hvalveiðar með síðari breytingum.
Ráðuneytið bendir jafnframt á að ákveða skal gjald fyrir hvert leyfi til að standa straum af kostnaði vegna eftirlits með hvalveiðum sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um hvalveiðar nr. 26/1949.
Umsóknir um leyfi til hrefnuveiða skulu sendar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.