Hvernig er hægt að bæta þjónustu hins opinbera? Nýsköpunardagur haldinn í júní
Nýsköpunardagur hins opinbera verður haldinn 4. júní næstkomandi í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Þar verður fjölbreytt dagskrá sem ætluð er stjórnendum hjá ríki og sveitarfélögum. Dagurinn snýst í meginatriðum um að skoða hvernig nýta má nýsköpun til þess að bæta þjónustu hins opinbera.
Skráning á nýsköpunardag hins opinbera
Meðal þess sem fjallað verður um á nýsköpunardeginum er eftirfarandi:
- Nýsköpun í samvinnu við almenning. Anne Tortzen er stofnandi og forstjóri Center for borgerdialog í Danmörku. Hún kynnir hugmyndafræðina um samsköpun eða co-creation sem leið til að bæta þjónustu við almenning og lífskjör.
- Nýsköpun í raunveruleikanum, hvernig fórum við að? Fjögur nýsköpunarverkefni opinberra vinnustaða kynnt.
- Ávinningur af stafrænni þjónustu. Verkefnastofa um stafrænt Ísland kynnir aðferðafræði við mat á ávinningi af stafrænni þjónustu.
- Hvaða virði skapar nýsköpun hjá hinu opinbera? Daði Már Steinsson kynnir niðurstöðu meistararitgerðar sinnar sem byggist á Nýsköpunarvoginni.
- Nýsköpunarmót 2019. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ríkiskaup kynna fyrirhugað nýsköpunarmót.
- Kynning á upplýsingagátt opinberra vinnustaða um nýsköpun og áherslum í nýsköpun hjá hinu opinbera.
Nánari dagskrá verður birt síðar ásamt skráningarmöguleikum. Dagurinn verður haldinn í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands, Brynjólfsgötu 1, Reykjavík kl. 08.00-11.00. Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga standa að nýsköpunardeginum.
Vinnustofa um samsköpun
Í tengslum við nýsköpunardaginn verður Anne Tortzen með vinnustofu um samsköpun (e. co-creation) þann 3. júní frá 12.00-15.00. Vinnustofan ber heitið: How can life quality of citizens and communities be improved through co-creation? Skráning á vinnustofuna verður opin innan skamms ásamt frekari upplýsingum.
Sama dag 4. júní mun faghópur um rafræna opinbera þjónustu bjóða upp á hádegisfund frá kl. 12-14. Yfirskrift fundarins er nýjungar í stafrænni opinberri þjónustu. Á fundinum verður verkefnastofa um stafrænt Ísland með erindi og kynningar á samstarfsverkefnum verkefnastofunnar og nokkurra stofnana. Fundurinn verður auglýstur síðar inn á www.sky.is.