Viðurkenningar veittar fyrir umhverfismál
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti Krónunni í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Ártúnsskóla í Reykjavík og Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi útnefndir Varðliðar umhverfisins.
Kuðungurinn
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Krónunni sem handhafa Kuðungsins kemur fram að allt frá árinu 2015 hafi fyrirtækið markvisst unnið að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum í sínum rekstri. Lögð hefur verið áhersla á að bjóða viðskiptavinum umhverfisvænar og lífrænt ræktaðar vörur auk þess sem Krónan hefur gripið til aðgerða til að sporna við hvers kyns sóun. M.a. hefur verið dregið úr orkunotkun fyrirtækisins með orkusparandi aðgerðum og dregið hefur verið úr sóun á pappír og pappa, m.a. með því að hætta prentun á fjölpósti sem áður var dreift á heimili landsmanna. Eins hefur pappakössum verið skipt út fyrir fjölnota kassa við innflutning á ferskvöru. Almennur úrgangur sem fer til urðunar hefur dregist saman um tæp 19% og verulega hefur verið dregið úr plastnotkun, m.a. með nýjum umbúðum fyrir ferska kjötvöru. Þá hefur með markvissum aðgerðum verið dregið úr matarsóun hjá fyrirtækinu eða um 50%. „Að draga úr matarsóun er mjög stórt verkefni. Það að stíga fram og segjast ætla að taka á matarsóun er ákveðið ferli, og hefur Krónan náð eftirtektarverðum árangri á því sviði,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
Verðlaunagripinn, Kuðunginn, sem Krónan hlaut, gerði að þessu sinni listakonan Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir. Þá öðlast Krónan rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Varðliðar umhverfisins
Verkefni nemenda í 5. – 7. bekk í Ártúnsskóla í Reykjavík fjallaði um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sett var upp dagskrá þar sem Heimsmarkmiðin voru kynnt með glærusýningum, leikþáttum, myndböndum og veggspjöldum þar sem aðrir nemendur voru hvattir til aðgerða. Var hluti verkefnanna einnig kynntur á Menningarvöku skólans fyrir vinum og fjölskyldum nemendanna auk þess sem umhverfisnefnd skólans kom af stað matjurtaræktunarátaki í gluggakistum víða um skólabygginguna. Þá unnu nemendur í samstarfi við RÚV og Skógræktina myndefni um skógrækt og voru útdrættir úr efninu sýndir í Krakkafréttum RÚV í mars. Er það mat valnefndar að með verkefnum sínum gefi nemendur á miðstigi Ártúnsskóla sérlega góða leiðsögn um hvernig best verði unnið að umhverfismálum í framtíðinni. Þeir hafi gert sitt til að breyta hegðun annarra til hins betra, bæði í nærsamfélagi sínu og á landsvísu. Verkefnið hafi náð yfir breitt svið sjálfbærnimála og opnað augu nemenda og annarra fyrir þeim margvíslegu áskorunum sem þjóðir heims standa frammi fyrir í framtíðinni.
Nemendur í 9. og 10. bekk Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi tóku einnig fyrir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en út frá lögmálum nýsköpunar. Krakkarnir fóru í hugmyndavinnu þar sem þeir fundu nýjar lausnir á ólíkum umhverfisvandamálum og bjuggu þannig til vöru, þjónustu eða verkferli sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Meðal nýjunga nemendanna voru fernur fyrir gosdrykki í stað plastflaskna, sólhattur sem um leið umbreytir sólarorku í raforku, leikfangaáskrift og þjónustan „Hundhverfisvænt“, sem gengur út á að hreinsa upp úrgang eftir hunda og nota til þess færri plastpoka en ella. Nemendur héldu kynningu fyrir fjölskyldur sínar, samnemendur og starfsmenn, voru í sambandi við fyrirtæki, gerðu kannanir og stóðu fyrir undirskriftasöfnunum. Það er mat valnefndar að nemendur í Valhúsaskóla hafi á lausnamiðaðan hátt og með hugmyndaauðgi og sköpunargáfu tekist á við margar af helstu áskorunum samtímans. Þeir hafi lagt sig fram um að kynna lausnir sínar vítt og breitt um nærsamfélag sitt og þannig veitt eldri kynslóðum leiðarljós í því hvernig ná megi markmiðum um sjálfbæra þróun.
Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn sem haldin var í Hannesarholti í dag. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.
Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra
Ávarp formanns dómnefndar Kuðungsins - rökstuðningur dómnefndar
Ávarp fulltrúa valnefndar Varðliðaverðlauna - rökstuðningur valnefndar