Ný handbók um NPA
Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út nýja handbók um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Markmið hennar er að miðla upplýsingum um hvað í því felst að njóta aðstoðar sem er skipulögð undir heitinu NPA. Í henni er að finna umfjöllun um hugmyndafræðina að baki þjónustunni. Sömuleiðis stefnu og markmið þar að lútandi.
Megináhersla er lögð á eftirtalda þætti:
- Handbókinni er ætlað að lýsa því hvernig leysa má ýmis verkefni og álitamál sem koma upp við framkvæmd NPA.
- Í handbókinni er að finna upplýsingar og leiðbeiningar er lúta að ábyrgð notanda, verkstjórnanda og umsýsluaðila NPA.
- Fjallað er um hlutverk þeirra sem koma að NPA, einkum hvað varðar samskipti við vinnuveitendur, aðstoðarfólk, sveitarfélög o.fl.
- Handbókinni er leiðarvísir fyrir bæði reynda og óreynda verkstjórnendur. Bókina má einnig nota sem þátt í kynningu og fræðslu um NPA.
- Handbókin hefur víðtæka skírskotun fyrir þá er láta sig NPA varða og er áfangi á þeirri leið að skapa skýra umgjörð um NPA og tryggja markvisst verklag þannig að aðstoðin stuðli að því að skapa enn betri lífsgæði fyrir notendur NPA á Íslandi.
Handbókinni fylgja ýmis fylgiskjöl. Má þar nefna samningsform fyrir NPA, upplýsingar um gott starfsumhverfi, starfsleyfi, siðareglur, starfslýsingar og fleira.
Handbókinni er ætlað að vera lifandi og tímalaust skjal. Það þýðir að hún er stöðugum breytingum undirorpin og mun því geta breyst í samræmi við aukna þekkingu og þann lærdóm sem draga má af innleiðingu NPA á komandi misserum. Nýjustu útgáfu handbókar um NPA verður ávallt að finna á vef félagsmálaráðuneytisins.
Ráðuneytið hefur í framhaldi af gildistöku laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir lagt ríka áherslu á að reglugerð, handbók og vinnuskjöl um NPA yrðu tilbúin eins fljótt og mögulegt er. Reglugerð um NPA var sett skömmu fyrir síðustu ármót, eyðublöð við framkvæmd NPA voru tilbúin í byrjun febrúar og nú er 2. útgáfa handbókar um NPA komin út. Á sama tíma hefur ný heimasíða NPA verið tekin í notkun og auðveldar hún aðgengi að helstu upplýsingum um NPA.
• Handbók um notendastýrða persónulega aðstoð - 2. útgáfa