Stytting vinnuvikunnar hefur jákvæð áhrif
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi fyrir skömmu skýrslu um niðurstöður viðhorfskannana og hagrænna mælinga eftir tólf mánaða tilraun af styttingu vinnuvikunnar. Skýrslan er gefin út í tengslum við tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöður viðhorfskannana leiða í ljós jákvæða upplifun þátttakenda og jákvæð áhrif á líðan þeirra í vinnu og daglegu lífi. Niðurstöður hagrænna mælinga sem snúa að veikindafjarvistum, yfirvinnustundum, skilvirkni og árangri sýna að styttri vinnuvika hefur ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur.
„Þetta er áhugaverð tilraun sem bendir til jákvæðrar útkomu. Stytting vinnuvikunnar er víða til umræðu og á ég von á því að niðurstöðurnar gagnist við frekari skoðun,“ segir Ásmundur Einar.
Markmið tilraunarinnar var að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 stundum í 36 stundir á vinnustöðum hjá ríkinu leiddi til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og þeirra vinnustaða sem valdir voru til þátttöku.
Þrjár rafrænar kannanir voru lagðar fyrir starfsmenn þeirra vinnustaða sem tóku þátt, en þeir eru Lögreglan á Vestfjörðum, Embætti ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands. Þær voru einnig lagðar fyrir starfsmenn fjögurra annarra vinnustaða með lík einkenni til viðmiðunar.
Í könnununum þremur voru metin viðhorf til ýmissa þátta sem tengjast upplifun og líðan í starfi. Kannað var hvernig þátttakendum gekk að samræma vinnu og einkalíf og spurt um væntingar og reynslu af styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöður sýna jákvæða upplifun af styttingu vinnuvikunnar og jákvæð áhrif á líðan í vinnu og daglegu lífi. Það dregur úr upplifun af kulnun sem og andlegum og líkamlegum streitueinkennum. Hvað varðar viðhorf til vinnustaðar og starfs, vinnustaðarbrags og stjórnunar mælist upplifun af álagi í starfi almennt minni. Starfsandi mælist betri, viðhorf til starfs jákvæðari og sjálfstæði í starfi er almennt meira. Þá finnst þátttakendum almennt skýrara til hvers er ætlast af þeim í starfi og finnst minna um misrétti. Þeir upplifa réttlátari stjórnun og aukna hvatningu frá stjórnendum. Niðurstöður benda til aukins jafnvægis milli vinnu og einkalífs og minni árekstra þar á milli. Almennt eru þessi viðhorf jákvæðari á vinnustöðum sem styttu vinnutíma borið saman við viðmiðunarvinnustaðina sem voru með óbreytta vinnuviku en þar eru viðhorf að mestu óbreytt milli mælinga sem framkvæmdar voru eftir sex og tólf mánuði.
Þær hagrænu mælingar sem horft er til eru sem fyrr segir veikindafjarvistir, yfirvinnustundir, skilvirkni og árangur. Þær sýna að yfirvinnustundum fækkaði á tveimur vinnustöðum en fjölgaði á tveimur. Það dró úr veikindafjarvistum á tveimur vinnustöðum en þeim fjölgaði á tveimur. Mælikvarðar á skilvirkni og árangri voru ólíkir milli vinnustaðanna og endurspegla ólíka starfsemi þeirra. Niðurstöður þeirra mælinga sem stuðst er við sýna að styttri vinnuvika hefur ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur stofnana.