Sjúkrahúsið á Akureyri hlýtur ISO-vottun, fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana
Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fengið endunýjaða gæðavottun á starfsemi sinni sem það hlaut fyrst árið 2015, auk þess að hljóta nú vottun samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001:2015. Sjúkrahúsið er fyrsta heilbrigðisstofnunin hér á landi sem hlýtur slíkar viðurkenningar.
Gæðavottunin tekur til faglegra þátta starfseminnar á öllum sviðum og nær yfir alla þá þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. ISO-vottunin er á hinn bóginn vottun á gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ÍST EN ISO 9001 staðli, sem gefinn var út árið 2015.
„Megindrifkrafturinn í þessari vegferð sjúkrahússins er aukið öryggi og þjónusta við sjúklinga og bætt starfsaðstaða. Vottunin og sú vinna sem henni tengist skilar markvissari vinnuferlum, auknu öryggi sjúklinga og starfsmanna og tryggir stöðugar umbætur, sem leiðir af sér skilvirkari þjónustu. Þá skerpir hún á hlutverkum hvers og eins sem m.a. hefur jákvæð áhrif á vinnuumhverfi og samskipti sem eru lykilþættir í starfsánægju“ segir meðal annars í fréttatilkynningu um þessi tímamót á vef Sjúkrahússins á Akureyri.