Ríkisstjórnin styrkir Sinfóníuhljómsveit Íslands
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 15 millj. kr. af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til Sinfóníuhljómsveitar Íslands til að standa straum af tónleikaferðalögum hljómsveitarinnar til Bretlands og Bandaríkjanna á árunum 2020 og 2021. 7,5 millj. kr. verða veittar af ráðstöfunarfé ársins 2019 og 7,5 millj. af ráðstöfunarfé ársins 2020.
Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur til boða að fara í tónleikaferð til Bretlands í febrúar nk. Til stendur að halda átta tónleika í öllum helstu borgum Bretlands undir stjórn Yan Pascal Tortelier sem hefur verið aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar frá 2016. Þetta er í fyrsta sinn sem hljómsveitinni stendur til boða að fara í tónleikaferð til Bretlands.
Þá hefur hljómsveitinni jafnframt verið boðið að leggja upp í tónleikaferð til Norður-Ameríku haustið 2021 þar sem tvær umboðsskrifstofur hafa sýnt hljómsveitinni áhuga.
Markmiðið með slíkum tónleikum á erlendri grundu er m.a. að skapa dýrmætan og einstakan vettvang til að kynna íslenska tónlist, leikna af bestu einleikurum landsins og Sinfóníuhljómsveit Íslands.