Hoppa yfir valmynd
9. maí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenski skálinn umbreytir Homo Sapiens í Chromo Sapiens á 58. Feneyjatvíæringnum í myndlist

Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter - myndElísabet Davíðsdóttir

Íslenski myndlistamaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringunum í ár. Sýningin er í vöruhúsu á Giudecca-eyju í Feneyjum og einkennisefniviður listamannsins er gervihár. Litir, hljóð og aðlaðandi áferð leiða gesti í gegnum þrjú ólík rými sem umlykja þá í myndrænum og hljóðrænum samruna í verkinu Chromo sapiens. Sýningin stendur frá 11. maí til 24. nóvember. Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir.

Í fréttatilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar segir: „Þegar stigið er inn í innsetningu Hrafnhildar, Chromo Sapiens, mæta þér drungaleg hellakynni, Primal Opus, myrkvuð göng í litasamsetningum eldhræringa sem virkjuð eru af neðanjarðar hljóðheimi rammíslensku málmsveitarinnar HAM. Hellaköfun þessi leiðir þig áfram inn í Astral Gloria, litríka hvelfingu þar sem skærlitaðar hárbreiður bylgjast um og teygja sig í ofgnótt sinni umhverfis sýningargesti. Litadýrð, áferð og hljóðmynd örva skilningarvitin með æpandi litum bifandi hárfaðms sem mýkist við lendingu í himnesku hreiðri Opium Natura. Þar flökta dúnmjúkir litatónar sem umvefja gesti friðsæld og sakleysi sjónrænnar alsælu.

Hljómsveitin HAM hefur samið tónverk fyrir Chromo Sapiens sem ómar um þann loðna ham sem Hrafnhildur hefur þakið salarkynni verksins með. Djúpar drunur og dynjandi niður tónheims HAMverja hreyfa við líkamlegum skynfærum með nötrandi hljóðbylgjum sem hnoða og þenja hverja taug. HAM hefur einnig samið einkennislag fyrir sýninguna en í textanum segir einmitt: "Þú átt ekki séns og sál þín er lens nema þú opnir hjarta þitt fyrir Chromo Sapiens".

Listsköpun Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter liggur á mörkum myndlistar, gjörninga og tísku og á sér rætur í áhuga hennar á dægurmenningu og fjöldaframleiðslu. Verk hennar eru full af húmor sem varpa ljósi á fáránleika samtímans af áráttu og tekst Hrafnhildi með undraverðum hætti að gjörbreyta umdeildu gerviefni í þrívíða yfirnáttúru.

Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri hefur áður unnið að þremur verkefnum Hrafnhildar úr innsetningaröð hennar er kallast Taugafold (E. Nervescape); Nervescape II í Havremagasinet Listamiðstöðinni í Boden, Svíþjóð (2013), Nervescape IV á Momentum 8 – Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist í Moss, Noregi (2015) og Nervescape VII í Listasafni Íslands, Reykjavík (2017).“

Í tilefni Chromo Sapiens hefur verið gefin út óhefðbundin sýningarskrá í formi fjölfeldis í takmörkuðu upplagi og samanstendur af 12” LP vínylplötu og prentútgáfu, sem verður seld í íslenska skálanum. Vínylplatan inniheldur þrjú hljóðverk hljómsveitarinnar HAM og lofsöng þeirra tileinkaðan Chromo Sapiens ásamt upptöku af samtali Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter við Alönnu Heiss, stofnanda Clocktower Gallery og P.S.1 í New York. Prentútgáfan inniheldur texta eftir Birtu Guðjónsdóttur sýningarstjóra, Hilton Als, Jen DeNike, Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Timothy Morton.

Þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringnum hófst árið 1960. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með íslenska skálanum.

Instagram: @IcelandicPavilion @ShoplifterArt

Hashtags: #ChromoSapiens #Shoplifter #IcelandicPavilion

Fréttatilkynning frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar með nánari upplýsingum

  • Verk eftir Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta