13. fundur um stjórnarskrármál
Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál
13. fundur – haldinn föstudaginn 10. maí 2019, kl. 13.00-15.00, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.
Fundargerð
Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Inga Sæland (Flokki fólksins) og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) eru forfölluð. Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Margrét Einarsdóttir dósent er gestur fundarins undir 3. lið.
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerðin er samþykkt með smávægilegum breytingum.
2. Ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd
Forsætisráðherra vísar til umræðu á fyrir fundum um þessi tvö ákvæði. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu um auðlindir í náttúru Íslands frá síðasta fundi og var fyrirliggjandi útgáfa send á fundarmenn 30. apríl sl. Frumvarpið um umhverfisvernd hefur legið fyrir í núverandi mynd frá því fyrir jól.
Ákveðið er að opna nú á opið samráð um þessi tvö frumvörp fram til 30. júní næstkomandi. Eftirfarandi er fært til bókar og verður sú bókun birt á samráðsgáttinni:
„Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þessi tvö frumvörp sem hér eru birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þeirra í samráðsgátt stjórnvalda.
Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.
Einnig er vakin athygli á því að samráðsgátt stjórnvalda er einungis eitt af þeim verkfærum sem nýtt verða til samráðs við almenning. Fram undan er frekara almenningssamráð um önnur mál, m.a. með rökræðukönnun sem lagt er til að verði síðar á þessu ári.“
3. Framsalsákvæði
Margrét Einarsdóttir dósent er gestur fundarins undir þessum lið og fjallar um ákvæði um framsal valdheimilda á grundvelli greinargerðar dags. 1. febrúar 2019. Nánar tiltekið fjallar hún einkum um tillögu að slíku ákvæði sem unnin var af stjórnarskrárnefnd 2013-2016 en var aldrei birt opinberlega því ekki náðist full samstaða um hana.
Í umræðum er vikið að samanburði við slíkt ákvæði í norsku stjórnarskránni og við tillögu stjórnlagaráðs. Þá er rætt um hvaða þýðingu tillagan, sem ekki rúmar mögulega aðild að Evrópusambandinu, hefði ef hreyfing kæmist aftur á það mál. Þá kemur fram að tillagan þrengir heimildir til framsals ríkisvalds miðað við núverandi stöðu að því leyti að óheimilt væri að framselja vald til stofnana ESB. Þá er rætt hvort nefna þyrfti loftslagsmál sem eitt af markmiðum alþjóðasamstarfs sem slík tilllaga ætti við um. Sjónarmið koma fram um að ákvæði sé töluvert miðað við EES-samstarfið og spurning hvort rétt væri að hafa það almennara. Þá er nefnt hvort hægt sé að stefna að fyrirkomulagi þar sem Alþingi væri að meginstefnu í sjálfs vald sett hvort framsal er heimilað og ákvæði ekki þannig orðað að dómstólar væru að endurskoða slíkar ákvarðanir. Loks er rætt um tengsl við þjóðaratkvæðagreiðslur og rifjað upp að tillagan frá stjórnarskrárnefnd var hugsuð í samspili við þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði.
Ákveðið er að taka málið upp að nýju síðar.
4. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði mánudaginn 20. maí 2019 kl. 12-13. Þar verði rætt um fyrirhugaða skoðanakönnun og síðan rökræðukönnun í nóvember 2019.
Minnt er á spurningalistann um forsetakaflann.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 15.00