Hoppa yfir valmynd
10. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES um sérstöðu Íslands

Í máli sínu lýsti Guðlaugur Þór hvernig þekking og reynsla Íslendinga í nýtingu jarðhita hefur nýst víðs vegar um heiminn - myndHugi Ólafsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun sameiginlega yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtenstein á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni þann 8. maí þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkað ESB er áréttuð. 

Þar er undirstrikað að raforkukerfi Íslands sé, eins og stendur, einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefði stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.

Í yfirlýsingunni er ennfremur áréttað að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna í EES yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa á milli þessara ríkja og orkukerfis innri markaðar ESB væru ávallt á forræði þeirra. 

Þá er ítrekað í textanum að yrði samtengingu raforkukerfanna komið á í framtíðinni úrskurðaði Eftirlitstofnun EFTA (ESA) um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER). Það fyrirkomulag væri nú þegar til staðar í tilviki Noregs og Liechtenstein enda væri það í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins. 

Þessi yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES í sameiginlegu EES-nefndinni er í samræmi við yfirlýsingu sem utanríkisráðherra og framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn ESB gáfu saman út í mars sl. þar sem sérstaða Íslands er áréttuð. 

Fulltrúar Evrópusambandsins lásu einnig upp yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar um mikilvægi þess að þriðji orkupakkinn yrði samþykktur á öllu EES-svæðinu, það væri forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta