Hoppa yfir valmynd
10. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands fundaði með Guðlaugi Þór

Guðlaugur Þór Þórðarson og Liam Fox á Þingvöllum í dag. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, hittust í dag á fundi á Nesjavöllum en Fox er staddur í heimsókn hér á landi.

Ráðherrarnir ræddu tvíhliða samskipti ríkjanna, stöðu mála þegar kemur að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fyrirætlanir um framtíðarsamning Íslands og Bretlands að útgöngunni lokinni. Þá ræddu þeir einnig viðskiptatengsl við vinaþjóðir á borð við Bandaríkin, Kanada og Japan.

„Samband Bretlands og Íslands verður áfram sterkt óháð því hver niðurstaðan um Brexit verður. Við höfum þegar tryggt að núverandi tollkjör haldist ef Bretland gengur úr ESB án samnings og  hlökkum til að hefja viðræður um viðamikinn framtíðarsamning þegar þar að kemur,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn. 

„Á milli Bretlands og Íslands hefur um árabil verið góð vinátta en líka lífleg viðskipti enda erum við samherjar þegar kemur að frjálsri milliríkjaverslun. Við erum staðráðin í að styrkja enn frekar öflugt viðskiptasamband þegar Bretland gengur úr ESB,“ segir Liam Fox. 

Hagsmunagæsla vegna Brexit er eitt viðamesta verkefni utanríkisþjónustunnar um þessar mundir. Í aldarfjórðung hafa samskipti Íslands og Bretlands byggst á EES-samningnum en svo verður ekki eftir að Bretland gengur úr ESB. Á grundvelli víðtækrar hagsmunagreiningar hefur Ísland náð samningum við Bretland sem tryggir kjarnahagsmuni um vöruviðskipti, búseturéttindi og loftferðamál, hvort sem Bretland gengur úr ESB með eða án samnings. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta