Hoppa yfir valmynd
16. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jóni Sigurðssyni falin yfirumsjón með aðgerðum gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði

 Jón Sigurðsson - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur falið Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi ráðherra sem leiddi vinnu samstarfshóps um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði, að hafa yfirumsjón með því að framfylgja aðgerðum sem byggja á tillögum hópsins. Sömuleiðis þeim aðgerðum sem snerta félagsleg undirboð í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasaminga.

Samstarfshópurinn skilaði Ásmundi Einari skýrslu með tillögum til úrbóta í janúar. Þar er lögð áhersla á að stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði hvort sem um er að ræða félagsleg undirboð eða annars konar brot í ljósi sameiginlegra hagsmuna launafólks, atvinnulífsins og samfélagsins alls. Markmiðið sé að regluverk á vinnumarkaði verði skilvirkt.

Búið er að móta aðgerðaráætlun útfrá tillögunum. Hún felur í sér yfirgripsmikla vinnu og aðkomu margra aðila. Eins varða margar af þeim aðgerðum, sem ríkisstjórnin hefur kynnt að hún muni beita sér fyrir til stuðnings svokallaðra lífskjarasamninga, félagsleg undirboð. Því þykir brýnt að málum verði fylgt eftir með markvissum og ábyrgum hætti og er stefnt að því að allar þær lagabreytingar sem aðgerðirnar kalla á verði lagðar fram á næsta löggjafarþingi.

Meðfylgjandi er skýrsla samráðshóps um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði, skýrsla um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga þar sem allar aðgerðir eru settar fram og yfirlit yfir stöðu þeirra sem varða félagsleg undirboð, en vinna við stóran hluta þeirra er þegar vel á veg komin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta