Þrjátíu ný dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun
Opnuð hefur verið í Hrafnistu í Laugarási ný dagdvöl ætluð fólki með heilabilun, með aðstöðu fyrir 30 einstaklinga. Aðstöðunni var komið á fót með breytingum á húsnæði sem ekki var lengur hægt að nýta til reksturs hjúkrunarrýma. Hjúkrunarrýmin voru 11 í aðstöðu sem uppfyllti enganveginn nútímakröfur um aðstæður fólks á hjúkrunarheimilum.
Nýja dagdvalardeildin á Hrafnistu er kölluð Viðey og dregur heiti sitt af fallegu útsýni út á Sundin þar sem Viðey blasir við. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu segir að vegna langra biðlista eftir dagdvalarrýmum fyrir heilabilaða á höfuðborgarsvæðinu sé deildin kærkomin viðbót við þá faglegu þjónustu sem einstaklingar með heilabilun þurfi á að halda.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnaði frumkvæði stjórnenda Hrafnistu og gerði nýsköpun og getuna til að sjá tækifæri í breyttum aðstæðum að umtalsefni í ávarpi við vígsluhátíðina, þar sem fjöldi fólks kom saman til að fagna opnun deildarinnar.
„Hér hafa stjórnendur Hrafnistu séð ný tækifæri í húsnæði sem samkvæmt nútíma kröfum var ekki lengur til þess fallið að hýsa hjúkrunarrými. Það er einmitt það hugarfar sem við þurfum á að halda nú þegar við munum á fáeinum áratugum þurfa að aðlagast breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar sem aðrar þjóðir hafa haft mun lengri tíma að aðlagast. Við þurfum að sjá tækifærin í núverandi stöðu til að útfæra hvernig við getum á sem bestan hátt mætt þörfum aldraðra fyrir þjónustu, innan sem utan stofnana“ sagði heilbrigðisráðherra meðal annars í ávarpi sínu.
Svandís lagði áherslu á mikilvægi stoðþjónustu við aldraða sem væri ekki síður mikilvæg en hjúkrunarheimilin sjálf og sérstaklega væri dagdvöl mikilvæg þjónusta fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra.
Þjónusta við aldraða er eitt þeirra mála sem heilbrigðisráðherra hefur sett í forgang þar sem áhersla er lögð á markvissari heilbrigðisþjónustu við aldraða og aukið forvarnastarf með heilsueflingu og endurhæfingu, samhliða stórsókn í fjölgun hjúkrunarrýma.
Um næstu mánaðamót er von á drögum að stefnu í þjónustu við fólk með heilabilun sem Jón Snædal öldrunarlæknir vinnur að fyrir ráðuneytið. Þetta verður í fyrsta sinn sem mótuð er sérstök stefna fyrir þennan málaflokk hér á landi.