S&P staðfestir A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs
Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands með stöðugum horfum. S&P reiknar með neikvæðum hagvexti á yfirstandandi ári vegna samdráttar í komum ferðamanna til landsins. Spá fyrirtækisins gerir einnig ráð fyrir að afgangur á viðskiptajöfnuði snúist í halla, en að hagkerfið taki við sér á nýjan leik á árinu 2020.
Stöðugar horfur endurspegla viðnámsþrótt hagkerfisins bæði á sviði ríkisfjármála sem og í ytri stöðu þjóðarbúsins sem vega á móti sveiflum í smáu opnu hagkerfi og mögulega snörpum samdrætti í ferðaþjónustu.
Fram kemur í fréttatilkynningu S&P að lánshæfismat ríkissjóðs gæti hækkað ef staða opinberra fjármála og erlend staða þjóðarbúsins styrkist verulega á næstu árum umfram það sem fyrirtækið gerir ráð fyrir. Þá gæti lánshæfismat ríkissjóðs lækkað ef merki sjást um vaxandi þrýsting á greiðslujöfnuð eða að fjármálastöðugleika sé ógnað á næstu tveimur árum. Það gæti orðið afleiðing af dýpri niðursveiflu í ferðaþjónustu en reiknað er með.
Fréttatilkynning S&P Global Ratings