Skýrsla um #metoo og Stjórnarráð Íslands sem vinnustað
Skýrsla um #metoo og Stjórnarráð Íslands sem vinnustað var kynnt í ríkisstjórn í morgun en skýrslan var unnin af stýrihópi um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt niðurstöðum kannana sé kynferðisleg áreitni ekki mjög algeng innan ráðuneytanna. Kannanir benda þó til að þolendur áreitni séu hikandi við að kvarta formlega og þegar þeir gera það séu þeir ekki endilega sáttir við málsmeðferð.
Í skýrslunni eru lagðar til eftirfarandi aðgerðir:
- Skipað verði óháð fagráð, sem hafi það hlutverk að taka við, meta og fara með tilkynningar og ábendingar sem því berast um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
- Endurskoðun á Stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi verði fram haldið og skerpt verði á verkferlum í tilfellum þar sem undirstofnanir leita ráða um málsmeðferð.
- Stjórnarráðsdagurinn 2019 verði helgaður #metoo.
- Gert verði átak í að efla fræðslu og umræðu til að byggja upp vinnustaðamenningu þar sem kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi fær ekki að líðast. Jafnréttisstofu verði falið að taka saman yfirlit yfir fræðsluefni sem þegar er til og að útbúa fræðslupakka til þriggja ára sem ráðuneytin geta nýtt sér. Þá verði Jafnréttisstofu falið að gera tillögu um bætta fræðslu fyrir nýliða innan Stjórnarráðsins.
- Kannaður verði fýsileiki þess að útbúa Jafnréttisskref fyrir starfsemi vinnustaða, sambærileg Grænu skrefunum um vistvænan rekstur.
- Ráðuneytin tryggi að jafnréttisfulltrúar hafi forsendur, burði og svigrúm til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem á borði þeirra eru.