Hoppa yfir valmynd
21. maí 2019 Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland hlýtur viðurkenningu fyrir einarða baráttu fyrir jafnrétti

Utanríkisráðherra á Womenomics-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í dag - myndUtanríkisráðuneytið
Ísland hlaut í dag viðurkenningu fyrir einarða baráttu fyrir jafnrétti á norrænu viðskiptaráðstefnunni Womenomics í Kaupmannahöfn en það er í fyrsta sinn sem land eða þjóð hlýtur slíka viðurkenningu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók við viðurkenningunni fyrir hönd Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hann hélt einnig opnunarávarp á rakarastofuráðstefnu sem haldin var við þetta tækifæri að íslenskri fyrirmynd.

Við verðlaunaafhendinguna þakkaði Guðlaugur Þór frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og öðrum forystukonum þann árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi og sagði þær hafa stuðlað að umbótum á lagaumhverfi og samfélagsinnviðum sem eru grundvöllur þessara framfara. „Ég bjóst ekki við því þegar ég varð utanríkisráðherra að jafnrétti yrði eitt aðalviðfangsefnið í starfinu en það er mikil eftirspurn eftir samstarfi og ráðgjöf frá Íslandi á þessu sviði. Jafnrétti er sannarlega ein meginforsenda sjálfbærrar þróunar og mikilvægt að halda jafnréttisbaráttunni áfram á alþjóðavettvangi,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Um eitt þúsund manns úr norrænu atvinnulífi sóttu þessa árlegu ráðstefnu um stöðu kvenna í atvinnulífinu en þetta er í sjötta skiptið sem Womenomics ráðstefnan er haldin í Kaupmannahöfn. Dagskráin var fjölbreytt með áherslu á hlut kvenna í atvinnulífinu og hagkerfinu almennt. Meðal annarra verðlaunahafa í ár var belgíska prinsessan Esmeralda sem nýlega skrifaði bók um konur sem hlotið hafa Nóbelsverðlaun auk norrænu athafnakvennanna Evu Berneke, Söru Wimmercranz og Susanne Najafi. 

Um 140 norrænir stjórnendur úr atvinnulífinu sóttu rakarastofuráðstefnuna sem þótti heppnast vel. „Ég læri sjálfur heilmikið í hvert sinn sem ég tek þátt í rakarastofuráðstefnum og hef ég tekið þátt í þeim nokkrum. Það er mjög mikilvægt að jafnréttisumræðan nái til karla, sérstaklega þeirra sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku, þar sem við gerum okkur sjaldnast grein fyrir því hversu mikil slagsíða er enn í samfélaginu, körlum í vil.“

Ræðu ráðherra á Womenomics ráðstefnunni er að finna hér og ræðu hans á rakararáðstefnunni er að finna hér.

Streymi frá Womenomics ráðstefnunni er aðgengilegt hér og rakarastofunni hér.
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta